Haustkosningahvati

Greinar

Bætt staða ríkisstjórnarflokkanna í nýjustu skoðanakönnun DV er þegar farin að hvetja þá til haustkosninga. Þótt stjórnarflokkarnir hafi ekki náð öllu fylgi sínu úr síðustu kosningum, eru þeir þó greinilega mun betur settir en þeir hafa verið í könnunum síðustu tvö árin.

Ekki falla samt röksemdir málsins allar í einn og sama farveg. Kosningaspáin, sem byggist á skoðanakönnuninni, felur í sér 21 þingmann Sjálfstæðisflokksins og 9 þingmenn Alþýðuflokksins. Það dugar þeim ekki til að endurnýja núverandi stjórnarmynztur eftir kosningar.

Einnig þarf að hafa í huga, að hefð er fyrir því að líta vinsamlegri augum þær ríkisstjórnir, sem halda út í heil kjörtímabil, heldur en þær, sem gefast upp fyrir tímann. Þolgæði er af mörgum talið vera merki um gott stjórnarsamstarf og jafnvel traust stjórnarfar.

Þriðja atriðið mælir gegn haustkosningum. Það er, að Jóhanna Sigurðardóttir mun vafalítið reynast hafa meira fylgi en flokksformaður hennar í prófkjöri, sem hugsanlegt er, að flokkurinn neyðist til að halda í Reykjavík, ef hann getur ekki afsakað sig með tímahraki.

Flest annað stuðlar að haustkosningum. Eftir óvænt hvarf Jóhönnu úr ráðherrastóli verður erfiðara fyrir ríkisstjórnina að ná saman meirihluta á Alþingi og hefur það þó reynzt vera nógu erfitt fyrir. Einkum verður þetta bagalegt við næstu fjárlagaumræðu á Alþingi.

Ekki þarf nema atkvæði Jóhönnu og Inga Björns Albertssonar til að koma ríkisstjórninni í minnihluta, ef hún nær ekki atkvæðum frá stjórnarandstöðunni. Ýmsir aðrir þingmenn stjórnarflokkanna hafa sýnt tilhneigingu til að hlaupa út undan sér í viðkvæmum málum.

Ljóst er, að ríkisstjórnin mun að vori ekki geta sýnt neinn árangur í starfi umfram þann, sem hún getur sýnt í haust. Meira að segja er hætta á, að næsta vor verði komin meiri bilunareinkenni í lágu vextina og litlu verðbólguna, sem ríkisstjórnin mun hrósa sér af í haust.

Fjármálaráðherra hefur gefið tóninn með plaggi, sem sýnir ýmsa möguleika á aðhaldi í ríkisrekstri á næsta kjörtímabili, eftir að slíkt aðhald hefur að mestu mistekizt á þessu kjörtímabili. Við hverfulan meirihluta á Alþingi er ólíklegt, að stjórnin bæti þessa stöðu í vetur.

Seðlabankinn hefur þegar neyðzt til að hækka vaxtakröfu í sumum tegundum langtímalána. Þótt bankastjóri Sjálfstæðisflokksins segi þetta ekki fela í sér neina spá um aukna vexti og verðbólgu á næstunni, er ljóst, að hækkuð vaxtakrafa felur í sér ótta við framtíðina.

Áhugi á haustkosningum er meiri í Sjálfstæðisflokknum en Alþýðuflokknum, því að ýmsir vilja skipta út Alþýðuflokknum fyrir Framsóknarflokkinn, sem talinn er hafa færzt til hægri við formannaskiptin, þegar Halldór Ásgrímsson tók við af Steingrími Hermannssyni.

Um leið hefur smám saman komið í ljós, að miklir annmarkar eru á, að samstarfið um Reykjavíkurlistann og hliðstætt samstarf í ýmsum öðrum byggðum geti endurspeglazt í landsmálum, þar sem línur milli flokka eru mun skarpari en í sveitarstjórnarmálum.

Um þessar mundir er því að draga úr ótta í Sjálfstæðisflokknum um, að yfirvofandi haustkosningar muni draga flokka Reykjavíkurlistans í sameiginlegt landsframboð, sem muni eftir kosningar neyða þá flokka til að mynda með sér vinstri stjórn gegn Sjálfstæðisflokknum.

Samanlagt eru þau atriði heldur fleiri og þungvægari, sem hvetja stjórnarflokkana til haustkosninga, heldur en hin, sem letja þá til að mæta kjósendum að hausti.

Jónas Kristjánsson

DV