Dularfullur flokkur

Greinar

Alþýðuflokkurinn hefur þá sérstöðu meðal stjórnmálaflokka að rúma bæði vinsælasta stjórnmálamann þjóðarinnar og hinn óvinsælasta. Nýlega hafnaði flokkurinn hinum vinsæla sem formanni og endurkaus hinn óvinsæla. Um leið jók flokkurinn fylgi sitt lítillega.

Í þessu felast miklar þverstæður. Jóhanna Sigurðardóttir er rúmlega tvöfalt vinsælli en þeir stjórnmálamenn þjóðarinnar, sem næstir koma. Jón Baldvin Hannibalsson er óvinsælli en aðrir stjórnmálamenn samanlagðir, en heldur samt völdum í flokknum og eykur fylgi hans.

Hluti af skýringunni felst í, að Jóhanna Sigurðardóttir sækir fylgi sitt aðeins að litlu leyti til kjósenda Alþýðuflokksins, 6%. Hún hefur meira fylgi í öðrum flokkum og langmest meðal óákveðinna kjósenda, 50%. Það fylgi nýtist henni ekki í valdabaráttu innanflokks.

Hefðbundnir jafnaðarmenn, sem Jóhanna telur sig höfða til, eru bara að litlu leyti í Alþýðuflokknum. Hann er ekki lengur íslenzkur fulltrúi jafnaðarstefnunnar nema að forminu til. Að innihaldi hefur flokkurinn breytzt í atvinnu- og embættabandalag virkra félagsmanna.

Þetta virðist duga flokknum til nokkurs fylgis. Eftir margar og frægar embættaveitingar á vegum flokksins í vetur er hann heldur á uppleið og nálgast það fylgi, sem hann hafði í síðustu kosningum. Hann nýtur 14% fylgis þjóðarinnar og hafði 15,5% í síðustu kosningum.

Alþýðuflokknum er hvorki refsað fyrir framúrstefnu í pólitískri spillingu né fyrir að hafna vinsælasta stjórnmálamanni þjóðarinnar. Þessi sérstaða hlýtur að byggjast á, að flokkurinn er ekki lengur hefðbundinn flokkur, heldur aðferð til að útvega félagsmönnum störf.

Þetta virðast ef til vill vera fátæklegar og ófullnægjandi skýringar á merkilegu rannsóknarefni. Hálfu erfiðara er þó að skýra, hvers vegna eiginhagsmunaflokkur heldur dauðahaldi í langsamlega óvinsælasta stjórnmálamann landsins sem skipstjóra á flokksfleyinu.

Stundum hafna virkustu félagsmennirnir, svokallaðir flokkseigendur, vinsælum stjórnmálamönnum af ótta við að missa tökin, af ótta við flokkseigendaskipti. Frá sjónarmiði flokkseigenda er oft mikilvægara að hafa sterk tök á litlum flokki heldur en veik tök á stórum flokki.

Ef til vill eru virkir flokksmenn ánægðir með fylgisafla skipstjórans eins og hann er, úr því að hann dugar flokknum til aðildar að ríkisstjórn, og vilja ekki láta hugmyndafræðilegan stjórnmálamann spilla andrúmslofti bróðurlegrar skiptingar opinberra starfa.

Erlendis eru þó mörg dæmi um, að hagsýnir flokkar eru fljótir að skipta um formann, ef þeir verða óvinsælir. Þeir reyna að tefla fram vinsældamönnum hvers tíma til að vernda aðstöðu flokksins til að skaffa virkum flokksmönnum gott lifibrauð og varðveita það.

Við höfum raunar nýlegt dæmi um, að hagsýnn stjórnmálaflokkur skipti um borgarstjóraefni í miðri kosningabaráttu í útreiknaðri von um, að það mætti verða til að verja meirihlutann í borginni og þar með aðstöðu flokksins til að deila og drottna. Það tókst næstum því.

Flókið dæmi Alþýðuflokksins sýnir, hversu erfitt er að búa til formúlur um stjórnmál. Er sjónarmið og hagsmunir togast á, geta tiltölulega léttvæg atriði ráðið úrslitum á vogarskálinni. Vonin um varðveizlu 15% fylgis getur til dæmis aukið kjark til viðhalds spillingar.

Gallinn við 15% fylgi og óvinsælan karl í brúnni er þó sá, að það dugar Alþýðuflokknum ekki til áframhaldandi setu við kjötkatlana í núverandi stjórnarmynztri.

Jónas Kristjánsson

DV