Ríkis- og heimilisrekstur

Greinar

Rekstur íslenzkra heimila er ekki byggður á vinnubrögðum, sem stjórnvöld hafa tamið sér við rekstur ríkisins. Heimilisfólk safnar ekki saman óskalistum, er fela í sér útgjöld, sem fara 20% umfram tekjur. Það heldur sér einfaldlega innan við ramma heimilisteknanna.

Á íslenzkum heimilum fara ekki fram fundahöld um, hvort rétt sé að kaupa uppþvottavél eða fara í ferðalag fyrir peninga, sem ekki eru til. Meira að segja börnin á heimilinu skilja, að ýmis lífsgæði kosta raunverulega peninga, en eru ekki bara línur í bókhaldi töframanns.

Því síður geta íslenzkar fjölskyldur ákveðið að meira eða minna af óskhyggju þeirra nái fram að ganga með því að skylda umhverfið til að láta þær hafa meiri tekjur. Heimilisrekstur er ekki truflaður af skattlagningarvaldi eins og rekstur ríkisins hefur reynzt vera.

Ef ríkisreksturinn væri með felldu, væri fyrst áætlað, hverjar tekjurnar yrðu við óbreyttar aðstæður. Síðan væri athugað, hvort rétt væri að lækka skatta til að gleðja fólkið í landinu. Hins vegar létu menn sér ekki detta í hug að hækka enn einu sinni skatta á fólkinu.

Þegar þannig væri búið að finna áætlaða tekjuhlið ríkisrekstrarins á næsta ári, væri kannað, hverjar væru skuldbindingar ríkisins á ýmsum sviðum. Að vísu er matsatriði, hversu mikið þær eiga að kosta hverju sinni, en nauðsynlegt er að hafa hliðsjón af lagasmíði Alþingis.

Með tilliti til skuldbindinga ríkisins væri síðan ráðstöfunarfé ársins skipt milli ráðuneyta og helztu stofnana ríkisins og þeim skipað að halda sig innan rammans, alveg eins og hver heimilismaður verður að halda sig innan þess ramma, sem fjárhagur heimilisins leyfir.

Við slíkar aðstæður þarf að leysa frá störfum þá embættismenn, sem ekki geta haldið sig innan rammans. Við fyrsta brot má senda þá á hússtjórnarskóla til að læra grundvallaratriði í heimilishaldi. Við ítrekað brot er brýnt að skipta þeim út fyrir aðra, sem kunna sér hóf.

Auðvitað yrði mikið ramakvein í kerfinu. Embættismenn segðu, að ekki væri hægt að komast af með svona litla peninga. Alþingismenn heimtuðu, að staðið væri við kippur af óskhyggjulögum, sem þeir hafa afgreitt út í loftið án hliðsjónar af kostnaði við framkvæmd laganna.

Smám saman áttuðu embættismenn og alþingismenn sig á, að ekki mætti byggja ríkisrekstur á óskhyggju og að fresta þyrfti mörgum ráðgerðum góðverkum. Ramakveinum fækkaði og rekstur ríkisins færðist nær eðlilegu horfi, svo sem við þekkjum frá heimilum landsins.

Fjölskyldurnar í landinu geta ekki stundað góðverk á kostnað skattgreiðenda. Það hafa embættismenn og alþingismenn hins vegar hingað til getað gert. Þeim hefur reynzt auðvelt að vera örlátir á kostnað annarra. Þess vegna eru fjárlög ríkisins að sliga þjóðfélagið.

Enn einu sinni hefur óskhyggjuleiðin verið farin við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár. Safnað hefur verið saman óskhyggju embættismanna, sem sumpart er byggð á óskhyggju úr lögum frá alþingismönnum. Úr þessu kemur heildargat, sem nemur 20 milljörðum króna.

Senn mun hefjast hefðbundið rifrildi um, hvernig brúa megi bilið með niðurskurði og sköttum, svo að eftir verði helmingur af tapi ársins. Niðurstaðan verður nokkurn veginn hin sama og í ár, eins konar uppgjöf. Fjárlög næsta árs fara um eða yfir 10 milljarða úr böndum.

Stundum hefur verið minnt á, að á ríkisreksturinn þurfi að beita þekkingu og reynslu úr heimilisrekstri. Á það er aldrei hlustað, ekki heldur að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV