Botninn skrapaður

Greinar

Forsætisráðherra telur, að botni sé náð í efnahagskreppu landsins. Til fulltingis hefur hann þjóðhagsstjóra, sem telur, að hagtölur séu hættar að versna og muni batna örlítið á næsta ári. Með þessum yfirlýsingum er ráðgert, að þjóðin komist í betra skap á kosningaári.

Ánægjulegt er, að landsframleiðslan dregst ekki saman á þessu ári eins og búizt hafði verið við í þorskveiðikreppunni. Landsframleiðslan virðist munu haldast óbreytt milli ára vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði áls og fjölgunar erlendra ferðamanna til landsins.

Að þessu leyti njótum við efnahagsbata umheimsins. Hagvöxtur er að komast á góða ferð í nágrannalöndunum og það endurspeglast að venju í batnandi viðskiptakjörum okkar og auknum þjóðartekjum. Það falla alltaf molar til okkar, ef vel gengur í viðskiptalöndum okkar.

Þótt botni sé náð í kreppunni, eru spátölur Þjóðhagsstofnunar fyrir næsta ár ekki svo glæsilegar, að hægt sé að hrópa húrra. Gert er ráð fyrir 1% hagvexti á næsta ári í stað 0% á þessu ári, 5,3% atvinnuleysi í stað 5,2% á þessu ári og 2% verðbólgu í stað 1,7% á þessu ári.

Í rauninni segja tölurnar, að ástandið á næsta ári verði svipað og það hefur verið á þessu ári. Það er út af fyrir sig varnarsigur, því að þjóðin hefur meira eða minna lagað sig að núverandi aðstæðum og sett upp súpueldhús fyrir þá, sem ekki geta bjargað sér í atvinnuleysinu.

Spátölur ríkisins segja líka, að á næstu misserum muni Ísland ekki taka neinn marktækan þátt í aukinni velgengni umheimsins. Á næsta ári muni áfram ríkja hér meiri eða minni stöðnun, á sama tíma og hjól efnahagslífsins eru komin á góða ferð í nágrannalöndunum.

Spátölurnar segja okkur, að við höfum sem þjóð lagað okkur að efnahagserfiðleikunum, en tæpast gert nokkuð að gagni til að aflétta séríslenzkum aðstæðum, sem hafa búið til séríslenzka kreppu. Við höfum varla gert nokkuð til að losna við kreppuvalda efnahagslífsins.

Við búum enn við ríkisrekstur hefðbundins landbúnaðar og brennum á þann hátt 15-20 milljörðum króna á hverju ári. Það eitt út af fyrir sig nægir til að rækta myndarlega kreppu. Til viðbótar frestum við í sífellu að breyta kvótakerfi sjávarútvegs í vitrænna horf.

Við munum áfram búa við kreppu, meðan ekki er lagður niður ríkisrekstur á landbúnaði og meðan ekki er komið upp auðlindaskatti í stað kvótakerfis í sjávarútvegi. Hægfara aukning erlendra ferðamanna og sveiflur á álverði megna ekki að bæta okkur aðgerðaleysið.

Ef til vill er þjóðin orðin svo framtakslítil og væntingasnauð, að hún fagnar upplýsingum og kenningum um, að vont efnahagsástand muni ekki enn versna. En ekki eru mörg ár síðan hún ætlaði sér stærri hluti í lífinu en að verða að eins konar Árbæjarsafni í Atlantshafi.

Sjálfsánægjan að baki kenningarinnar um betri tíð sýnir, að núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að enda feril sinn með neinum aðgerðum, sem gefi tilefni til aukinna væntinga þjóðarinnar. Næsta ríkisstjórn, á vegum Framsóknarflokksins, mun ekki heldur gefa slík tilefni.

Íslendingar hafa verið duglegir við að hlaða niður börnum, en minna hugsað um að búa þeim glæsta framtíð. Þeim mun duglegri höfum við verið að hnýta börnum okkar skuldabagga til að standa undir eyðslu líðandi stundar. Við erum að eyðileggja væntingar arftakanna.

Ný þjóðhagsspá og meðfylgjandi sjálfsánægja stjórnvalda yljar ekki á ljúfum sumardegi, heldur gefur kuldahroll af tilhugsuninni um veruleikann að baki tölunum.

Jónas Kristjánsson

DV