Færeysk-vestfirzka leiðin

Greinar

Vestfirðir eru víti fyrir þjóðina til að varast. Þar fellur atburðarásin í farveg, sem minnir á Færeyjar síðustu tvo áratugina, er skuldlaust ríki breyttist á undraskömmum tíma í gjaldþrota ríki. Enda minna úrbótatillögur frá Vestfjörðum á hrapalleg úrræði færeyskra stjórnvalda.

Þótt atvinna sé enn meiri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum, stendur hún mjög tæpt vegna slæmrar stöðu mikilvægra fyrirtækja. Hér í blaðinu birtist á laugardaginn yfirlit yfir stöðuna. Það sýndi, að hrun blasir við stórfyrirtækjum í flestum plássum Vestfjarða.

Færeysk-vestfirzka ástandið lýsir sér bezt í einhæfu atvinnulífi. Vestfirzk fyrirtæki hafa fæst fetað leið annarra sjávarútvegsfyrirtækja, sem áður voru eins háð þorski, en hafa smám saman breytt samsetningu aflans. Vestfirðingar hafa bitið sig fasta í þorsksérhæfinguna.

Um atvinnulíf gilda svipuð lögmál og um dýrategundir. Sumum dýrategundum vegnar vel um tíma, af því að þær laga sig að sérstökum aðstæðum. Þegar þær aðstæður breytast snögglega, deyja sérhæfðu tegundirnar út, meðan hinar sveigjanlegri lifa áfram og þróast.

Nýjasta og róttækasta dæmið um færeyskt-vestfirzkt ástand er Þingeyri. Þar hefur sérhæfingin verið slík, að nánast öll egg atvinnulífsins eru í einni kaupfélagskörfu. Þegar Fáfnir riðar til falls, er allt bæjarfélagið í hættu, af því að enginn annar stór vinnuveitandi er á staðnum.

Við þessi lögmál Darwins bætist svo fyrirhyggjuleysi ráðamanna Þingeyrar. Á sama tíma og atvinnulífið er að sigla í strand, standa þeir í stórframkvæmdum á borð við íþróttahús, sundlaug, heilsugæzlustöð og vistheimili fyrir aldraða, fyrir samtals 260 milljónir króna.

Svo veraldarfjarlægir eru ráðamenn Þingeyrar, að þeir segja skuldir sveitarfélagsins vera þolanlegar. Um þær gildir þó gamalt lögmál, sem segir, að allt sé aumingjanum of dýrt. Þegar sveitarfélag missir útsvarstekjur vegna gjaldþrota, minnkar skuldagreiðslugeta þess.

Ráðamenn Þingeyrar bíða nú eftir lánum til að standa undir fjárfestingarsukki sínu. Þegar á svo að fara endurgreiða lánin, mun atvinnulífið á staðnum hafa dregizt saman og útsvarstekjur sveitarfélagsins minnkað. Þetta er færeysk-vestfirzka ástandið í hnotskurn.

Á sama tíma hafa þingmenn Vestfjarða staðið fremstir í flokki þeirra, sem standa vörð um, að þjóðfélagið brenni 15-20 milljörðum á hverju ári í ríkisrekstri hefðbundins landbúnaðar. Þannig hafa þeir hindrað, að ríkið eigi aflögu hálfan milljarð í Vestfjarðaaðstoð.

Þannig er ógæfa Vestfjarða að mestu heimatilbúin af lélegum þingmönnum, lélegum sveitarstjórnarmönnum og lélegum forstjórum atvinnulífs. Þessir aðilar hafa bitið sig fasta í fortíðina og vilja nú, að samfélagið dragi sig vélarvana að landi. Þetta er alveg eins og í Færeyjum.

Munur Færeyja og Vestfjarða er raunar helztur, að danski ríkiskassinn hefur verið gjafmildari á undanförnum árum en hinn íslenzki. Þess vegna eru Færeyjar þegar orðnar gjaldþrota, en Vestfirðir búa enn við blómlega atvinnu, þótt þeir rambi á brún hengiflugsins.

Að svo miklu leyti sem framtíð Vestfjarða er í þorski, felast hagsmunir Vestfjarða í margumtöluðum auðlindaskatti, sem leysi þreytulegt kvótakerfi af hólmi. Að öðru leyti verða Vestfirðingar eins og aðrir að losna úr vítahring einhæfninnar og sérhæfingarinnar í þorski.

Ríkissjóður getur lítið gert til aðstoðar, því að hann er þegar ryksugaður í þágu landbúnaðar, að tilhlutan vestfirzkra þingmanna með færeyskan hugsunarhátt.

Jónas Kristjánsson

DV