Fara verður að lögum

Greinar

Póst- og símamálastjóri hyggst fara að ósk húsfriðunarnefndar um, að gamla pósthúsið á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis verði málað í upprunalegum lit rauðbrúnum. Með þessu fer hann að lögum og gefur öðrum valdamönnum gott fordæmi, sem ekki veitir af.

Gamla pósthúsið í Reykjavík var friðað árið 1991, eftir að miklar skemmdir höfðu verið unnar á því að innan. Síðan húsið var friðað má ekki breyta svipmóti þess og hafa verður samráð við húsfriðunarnefnd um breytingar. Um mál af þessu tagi gilda sérstök húsfriðunarlög.

Fólk getur deilt um, hvort hin og þessi lög séu góð eða skynsamleg, en nauðsynlegt er að fara eftir þeim. Ef lög eru talin ónothæf, er til stofnun, sem getur breytt þeim. Það er Alþingi. Þetta kerfi lagahefðar er hornsteinn þjóðskipulagsins hér á landi og í öllum nágrannalöndunum.

Töluvert er um, að valdamenn vilji ekki fara að lögum og komist upp með það. Nokkur dæmi um slíkt hafa verið í fréttum að undanförnu. Til skamms tíma leit svo út, sem Póst- og símamálastjóri mundi ekki leita samráðs við húsfriðunarnefnd um litinn á pósthúsinu.

Samkvæmt lögum ber að fá leyfi fornleifanefndar til að raska fornleifum, sem eru orðnar hundrað ára. Fornleifanefnd neitaði að veita leyfi til að raska bæjarstæði Hrafns Sveinbjarnarsonar læknis á Eyri við Arnarfjörð, þegar Hrafnseyrarnefnd vildi reisa þar torfbæ.

Samt fór Hrafnseyrarnefnd sínu fram gegn lögum og rétti. Hún sneri sér til óviðkomandi aðila, þar á meðal til forsætisráðuneytisins, sem lét sig hafa það að lýsa sérstakri ánægju með lögbrotið. Menntaráðherra hefur stutt lögbrotið með því að gera ekkert í málinu.

Frumkvæði að lögbrotinu hafði fyrrverandi ráðuneytisstjóri, sem hefði átt að vita betur. En valdshyggjan er honum orðin svo eiginleg, að hann hefur misst sjónar á, hvar geðþóttavaldið endar og hvar lögin byrja. Hið sama má segja um ráðuneytin, sem styðja hann.

Á Seltjarnarnesi er bæjarstjóri, sem þekktur er af andstöðu við náttúru og menningarsögu. Hann hefur látið gera við Ráðagerði voldugt bortorg, sem er tvöfalt stærra en það þarf að vera. Í því skyni hefur honum tekizt að spilla fjöru, sem ótvírætt er á náttúruminjaskrá.

Samkvæmt lögum þarf að hafa samráð við náttúruverndarráð í slíkum tilvikum, en það var ekki gert, enda fullyrti bæjarstjórinn í fjölmiðlum, að fjaran væri ekki á náttúruminjaskrá. Óbeint er hann studdur af náttúruverndarráði, sem enn hefur ekki mannað sig til mótmæla.

Áður hafði verið rifinn meira en aldargamall sjóvarnar- og túngarður við Eiði. Grjótið úr garðinum hefur nú verið notað í annan vegg, sem er allt öðruvísi en gamli garðurinn og sumpart á öðrum stað. Búið er að breyta fornminjum í eins konar fyrirbæri úr tízkublaði.

Varað var við þessum spjöllum bæjarstjórans á Seltjarnarnesi í tæka tíð. Samt var ekki farið að lögum og engin tilraun gerð til að tryggja, að garðurinn yrði endurhlaðinn á upprunalegan hátt. Ef ljósmyndir hafa verið teknar og teikningar gerðar, þá voru þær ekki notaðar.

Lögbrot eru ekki bara framin á sviðum menningarsögu og náttúruverndar. Á sama tíma hafa bankarnir ólögleg samráð um debetkort, þar sem tugum milljóna er velt á herðar almennings, og hafa síðan ólöglög samráð við samtök kaupmanna um staðfestingu lögbrotsins.

Með sífelldum lögbrotum af ýmsu tagi og afskiptaleysi af lögbrotum af ýmsu tagi eru stjórnvöld í anda austræns geðþótta að grafa undan hornsteini þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV