Fugl sem flýgur hratt

Greinar

Viðamikil skýrsla fjögurra deilda Háskóla Íslands um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu verður lögð fram eftir rúma viku. Mikilvægt er, að efni skýrslunnar verði kynnt opinberlega og örvi rökræður um, hvort Ísland eigi að sækja um fulla aðild að sambandinu.

Fyrir löngu er orðið tímabært, að ríkisstjórnin vakni og fari að sinna skyldum sínum á þessu sviði. Hún þarf að skilgreina markmið Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hefja söluherferð fyrir markmiðunum í höfuðstöðvum og aðildarríkjum sambandsins.

Sinnuleysi forsætisráðherra um málið er farið að ganga út í öfgar, en minnir raunar á hliðstætt áhugaleysi hans á skyldum sviðum, svo sem fullgildingu nýja sáttmálans á vegum alþjóðlega tollaklúbbsins Gatt um aukna fríverzlun og minnkun viðskiptahindrana.

Almennt stendur ríkisstjórnin sig ekki í mikilvægum samskiptum við umheiminn. Hún hefur til dæmis ekki látið hefja neinn markvissan áróður á vegum sendiráðsins í Noregi fyrir markmiðum Íslands á hafsvæðum á borð við Smugu, Svalbarðamið og Atlantshafshrygg.

Í stað þess að vinna skipulega að Evrópumálum hefur stjórnin klofnað um hávaðasaman utanríkisráðherra annars vegar og þveran forsætisráðherra hins vegar. Markviss stefnumótun í utanríkisviðskiptum er óframkvæmanleg, meðan ráðherrarnir geta ekki unnið saman.

Þjóðin er komin langt framúr stjórnvöldum í afstöðu til umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Samkvæmt skoðanakönnunum hafa viðhorf fólks breytzt svo ört, að í vor var kominn meirihluti með umsókn. Sá meirihluti hefur síðan haldið áfram að vaxa.

Vilhjálmur Egilsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Verzlunarráðs, segir meirihluta flokksmanna sinna styðja umsókn um aðild og nokkra þingmenn flokksins vera komna á sömu skoðun. Allt er þetta hluti af sinnaskiptum í þjóðfélaginu.

Marklítið er að tönnlast á, að í aðgerðaleysi sínu fylgi ríkisstjórnin bara markaðri stefnu frá Alþingi og sú stefna hafi ekki breytzt. Milli ákvarðana Alþingis þarf stjórnin að undirbúa mál. Tíminn er fugl, sem flýgur hratt. Hann flýgur kannski úr augsýn þér í kvöld.

Utanríkisráðherra hefur gert ýmsa góða hluti í samskiptum við ráðamenn í Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess. Hann hefur fengið þá til að tjá sig á jákvæðan hátt um aðild Íslands og um ýmsa sjávarútvegshagsmuni, sem við þurfum að gæta í viðræðum um aðild.

Sorglegt er, að þessi vinna skuli ekki koma að gagni, af því að trúnaðarbrestur hefur orðið milli forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sumpart vegna of mikils einleiks utanríkisráðherra í málinu og sumpart vegna of mikils þverlyndis forsætisráðherra í sama máli.

Komið hafa í ljós ýmsir möguleikar á að ná samningi um aðild að sambandinu tiltölulega snögglega og á grundvelli fullgildrar aðildar annarra ríkja á Norðurlöndum, í stað þess að fá síðar valdaminni smáríkjaaðild á svipuðum nótum og Malta og Kýpur munu sennilega fá.

Komið hefur í ljós, að ástæðulaus var ótti um, að þátttaka í Evrópska efnahagssvæðinu mundi leiða til flóðs útlendinga hingað í atvinnuleit og til óhóflegra fjárfestinga útlendinga í landinu, svo sem jarðakaupa. Óheillaspár á sviði evrópsks samstarfs hafa alls ekki rætzt.

Að fenginni reynslu á þessu sviði er orðið tímabært að setja á blað skýr markmið Íslands í evrópsku samstarfi og hefja kynningu þeirra í höfuðborgum Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV