Hef vanmetið Kaffivagninn á Granda. Fannst hann vera kaffihús fyrir sjómenn og fyrrverandi sjómenn. Hann er það, en miklu meira. Útsýni er frábært um stóra glugga yfir fiskibáta og gömlu höfnina. Nokkrir ágætir fiskréttir dagsins eru í boði. Að vísu nokkuð dýrir, 2.900 krónur, í samanburði við aðra fiskistaði. Fiskurinn er hóflega eldaður, staðnum til sóma. Hrásalat gott sem meðlæti og sósunotkun hófleg í magni og bragði. Rauðspretta dagsins var lystug. Þarna er fjölbreytt merkisfólk, sjómenn og hefðarkonur, útlendingar og forsetaefni, þurrkaðir drykkjumenn og fyrrverandi ritstjóri. Semsagt þverskurður af því bezta.