Áfram þjófar

Greinar

Forsætisráðherra Ítalíu og flokkur hans, Áfram Ítalía, styðja stórþjófa Ítalíu. Þeir hafa sleppt 2000 mönnum úr gæzluvarðhaldi og dregið úr baráttunni gegn mafíunni og öðrum stórglæpaflokkum landsins. Jafnframt hefur forsætisráðherrann reynt að skara eld að eigin köku.

Ítalir fóru úr öskunni í eldinn, þegar þeir kusu yfir sig Silvio Berlusconi í stað stjórnmálamannanna, sem leystu spillingarliðið af hólmi í gömlu stjórnmálaflokkunum og í arftakaflokkum þeirra. Ítalir ímynduðu sér í kosningunum í vor, að Berlusconi væri hvítur riddari.

Í síðustu viku gaf Berlusconi út tilskipun um, að ekki mætti halda mönnum í gæzluvarðhaldi vegna gruns um fjárglæfra. Á grundvelli tilskipunarinnar var 2000 mönnum sleppt úr haldi, þar á meðal mörgum þekktustu fjárglæframönnum stjórnmála og viðskiptalífs á Ítalíu.

Þótt tilskipun Berlusconis hafi verið dregin til baka í þessari viku, ganga hinir grunuðu lausir og hafa fengið nógan tíma til að spilla og eyða sönnunargögnum. Vegna tilskipunarinnar verður mun erfiðara en ella að ná lögum yfir þá, sem hafa stolið öllu steini léttara á Ítalíu.

Glæpaflokkar, stjórnmálamenn og viðskiptahöldar hafa háð stríð gegn þjóðfélaginu á Ítalíu. Gæzluvarðhald var orðið að virkustu vörn saksóknara og dómara gegn þessari aðför. Það er nauðsynlegt við ítalskar aðstæður, þótt annars staðar teljist það þrengja að mannréttindum.

Berlusconi tók persónulega þátt í aðförinni að saksóknurum og dómurum landsins og sagði þá hneppa menn í gæzluvarðhald til að baða sjálfa sig í sviðsljósi fjölmiðla. Hann hefur notað fjölmiðlaveldi sitt til að veitast að þessum bjargvættum ítalska þjóðfélagsins.

Jafnframt hefur Berlusconi gert atlögu að yfirmönnum ríkissjónvarpsins til að reyna að koma á alræði sínu í ljósvakaheimi Ítalíu. Hann segir þá ekki kunna með fé að fara og reynir að troða inn stuðningsmönnum sínum. Með þessu er honum að takast að gelda samkeppnina.

Í kosningunum á Ítalíu í vor féllu mafíuandstæðingar unnvörpum fyrir stuðningsmönnum Berlusconis, sem nutu fylgis þeirra, er áður höfðu kosið samkvæmt fyrirmælum mafíunnar. Niðurstaðan var sigur fyrir glæpaflokkana, svo sem nú er smám saman að koma í ljós.

Er Berlusconi lagði fyrir sig stjórnmál, var fjárglæfraveldi hans farið að riða til falls. Fjárfestingarfyrirtækið Fininvest skuldaði sem svarar 170 milljörðum íslenzkra króna. Gæzluvarðhaldsúrskurðir voru farnir að færast óþægilega nálægt hans mönnum og fyrirtækjum.

Raunar fæddist fjárglæfraveldi Berlusconis í jarðvegi spillingar. Það var einn allra spilltasti stjórnmálamaður gamla tímans, Bettino Craxi, þáverandi forsætisráðherra, er úthlutaði Berlusconi sjónvarpsleyfunum, sem urðu grundvöllurinn að fé hans og pólitískum frama.

Ítalir áttuðu sig ekki á, að Berlusconi var að bjarga eigin skinni. Þeir létu markaðsfræðinga hans hafa sig að fífli og sáu ekkert fyrir glýjunni af auglýsingaherferð í sjónvarpi. Niðurstaðan var hrapallegur ósigur skynseminnar, sem Ítölum er smám saman að hefnast fyrir.

Í stað þess að nota kosningarnar til að útvega sér heiðarlega stjórnmálamenn, fóru Ítalir úr öskunni í eldinn. Eina leiðin til bjargar málunum er, að framferði Berlusconis leiði til stjórnarkreppu og nýrra kosninga, þar sem Ítalir fái annað tækifæri, ef þeir vilja nota það.

Í kosningunum notaði Berlusconi slagorð úr fótboltanum, Áfram Ítalía, sem nafn á flokki sínum. Nú segja gárungarnir, að réttnefni hefði verið: Áfram þjófar.

Jónas Kristjánsson

DV