Helmingaskiptastjórn

Greinar

Sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur eykur líkur á helmingaskiptastjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eftir kosningar. Jóhanna mun taka nokkurt fylgi frá Alþýðubandalagi og Kvennalista og rýra möguleika þeirra flokka til að taka þátt í stjórnarmyndun.

Lengi hefur legið í loftinu tveggja flokka stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Við formannaskiptin hefur Framsóknarflokkurinn færzt til hægri. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur í auknum mæli hallazt að Evrópustefnu, sem er að skapi Framsóknarflokknum.

Flokkarnir tveir hafa reynt að vekja athygli á öðrum möguleikum sínum í stöðunni, annars vegar til að villa um fyrir kjósendum á hefðbundinn hátt og hins vegar til að styrkja stöðu sína í fyrirhuguðum samningum um samstarf þeirra í milli eftir næstu kosningar.

Framsóknarflokkurinn hefur lengi sérhæft sig í Janusarstöðu á miðju stjórnmálanna og samið ýmist til hægri eða vinstri eftir kaupum á eyrinni. Sjálfstæðisflokkurinn er nú að reyna að sýna fram á, að Alþýðubandalagið geti verið vænlegur samstarfskostur að þessu sinni.

Ágreiningur um utanríkismál er að mestu horfinn. Alþýðubandalagið getur sætt sig við varnarlið og Atlantshafsbandalag, enda er Nató orðið að öryrkjabandalagi, sem meira eða minna lýtur neitunarvaldi Rússa í reynd, svo sem í ljós hefur komið að undanförnu á Balkanskaga.

Eini flokkurinn, sem hefur sérstöðu í utanríkismálum, er Alþýðuflokkurinn, sem hefur teflt sér út af skákborðinu vegna óvenjulega glæfralegrar spillingar í embættaveitingum. Kjósendur þola flokkum sínum flest, en Alþýðuflokknum hefur þó tekizt að ganga fram af fólki.

Eftir skoðanakönnunum að dæma er aðeins til eitt tveggja flokka stjórnarmynztur. Það er gamalkunnug helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Alþýðubandalag og Kvennalisti hafa ekki hvor um sig bolmagn til að leika hlutverk Framsóknarflokks.

Það er því tómt mál fyrir Morgunblaðið að auglýsa Alþýðubandalag sem afleysingaflokk fyrir Framsóknarflokk. Alþýðubandalagið hefur ekki fylgi til að leika slíkt hlutverk, einkum vegna sérframboðs Jóhönnu Sigurðardóttur. Taka yrði þriðja flokkinn inn í slíkt mynztur.

Vinstri stjórn verður líka erfiðari eftir sérframboð Jóhönnu. Ekki dugir lengur þrjá flokka til að mynda slíka stjórn, heldur þurfa þeir að vera fjórir til þess að dæmið gangi upp, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Kvennalisti og annaðhvort Jóhönnu- eða Alþýðuflokkur.

Allt er svo sem orðið framkvæmanlegt, einkum eftir að stjórnmálaflokkarnir urðu í reynd allir nokkurn veginn eins. Með afskiptaleysi sínu af stjórnmálum hafa kjósendur gert stjórnmálaflokkunum kleift að breytast í valdaframleiðsluvélar fyrir einstaka stjórnmálamenn.

Hvert sem menn kasta atkvæði sínu, er niðurstaðan nokkurn veginn hin sama: Flokkspólitísk spilling, andstaða við aukið Evrópusamstarf, framhald árlegrar milljarðabrennslu verðmæta í landbúnaði, óbreytt kvótakerfi í sjávarútvegi, þjóðarsættir, aukin fátækt og stöðnun.

Stjórnmálaþokan magnast lítillega, þegar formaður Framsóknarflokksins hrósar formanni Alþýðuflokksins og þegar Morgunblaðið hrósar Alþýðubandalaginu. Eigi að síður glittir í gamalkunna og hefðbundna helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Slík stjórn var orðin líklegust strax í vor og er nú orðin hálfu líklegri, er Jóhanna stefnir að Vilmundsku uppreisnarframboði, sem fær nokkra þingmenn.

Jónas Kristjánsson

DV