Matur er mannsins megin

Greinar

Mikil aðsókn heilbrigðisstétta var að fyrirlestrum bandarískra lækna og næringarfræðinga, sem héldu opinn fund í Reykjavík fyrir helgina í boði bændasamtakanna og Náttúrulækningafélags Íslands. Fagfólk er farið að átta sig á, að næring hefur mikil áhrif á heilsu.

Það er svo sem ekki vonum fyrr, að áhugi heilbrigðisstétta beinist að náttúrulegum lækningaleiðum. Þær hafa verið kynntar hér í rúma sjö áratugi og oft sætt flimtingum. En nú eru menn farnir að viðurkenna, að oft er gott mataræði árangursríkara en lyf og uppskurðir.

Gott mataræði er ein bezta leiðin til að hindra viðgang sjúkdóma, sem tengjast lífsstíl nútímamannsins. Fyrirferðarmest eru þar krabbamein og hjartasjúkdómar. Sjúkdómar af því tagi kalla á mikinn og vaxandi hluta af þjóðartekjunum, sem um leið standa í stað eða minnka.

Enn er ekkert lát á óhófsneyzlu þjóðarinnar á hvítum sykri, sem haldið er fram, að sé eins mikill kostnaðarvaldur í heilbrigðiskerfinu og áfengi eða tóbak. Sú skoðun var sett fram af þekktum vísindamanni og lækni, sem ekki verður sakaður um sérvizku eða sértrúarofsa.

Í Bandaríkjunum og víðar eru næringarfræðingar að mestu orðnir sammála um, hvaða mataræði verndi heilsu fólks. Það er í stórum dráttum mataræðið, sem hér á landi hefur verið kynnt á vegum Náttúrulækningafélags Íslands og notað í Heilsustofnun þess í Hveragerði.

Þrátt fyrir skyndibitaátið hefur næring Íslendinga að ýmsu leyti batnað. Gróf heilhveitibrauð hafa náð útbreiðslu og farin eru að sjást pöstu úr heilhveiti. Ávextir og hreinir ávaxtasafar eru á hvers manns borði og notkun fjölbreytts grænmetis breiðist út jafnt og þétt.

Settar hafa verið á fót verzlanir, sem sérhæfa sig í vörum af þessu tagi. Einstaka sinnum er lífrænt ræktað grænmeti á boðstólum. Langt er þó frá því, að hollur matur sé eins aðgengilegur og hann þyrfti að vera. Ekki geta allir búið á Heilsustofnuninni í Hveragerði.

Læknarnir, sem voru hér fyrir helgina, svo og ýmsir aðrir bandarískir gestir íslenzku bændasamtakanna fyrr á þessu ári hafa bent á sérstöðu Íslands og möguleika íslenzks landbúnaðar á sviði náttúrulegrar fæðu, einkum í lífrænni ræktun grænmetis, mjólkur og kjöts.

Erlendis er jarðvegur víða orðinn eitraður af efnum, sem eiga að þenja afkastagetu landbúnaðar. Hið sama er að segja um alla fæðukeðjuna, sem byggist á þessum jarðvegi. Hér á landi hefur krafa til afkasta ekki enn haft eins skaðleg áhrif á umhverfi landbúnaðar.

Við samanburð á erlendum og innlendum landbúnaði verður að hafa þann fyrirvara, að víðast hvar í vestrænum löndum er auðvelt fyrir fólk að nálgast lífrænt ræktaða fæðu og aðra náttúrulega fæðu frá framleiðendum, sem hafa sérhæft sig á því sviði og fá hærra verð.

Hér á landi er hins vegar tiltölulega erfitt að fá slík matvæli, enda ríkir furðulegt innflutningsbann á lífrænum grænmetistegundum, þegar sömu tegundir fást hér ólífrænar. Íslenzkur landbúnaður er varla byrjaður að sveigja sig að innlendri neyzlu á þessu sviði.

Eins og oft vill verða hér á landi vilja menn gleypa sólina. Forustumenn í landbúnaði eru farnir að sjá í hillingum gullinn útflutning lífrænnar búvöru, þótt lítið sem ekkert hafi enn verið gert til að koma slíkri vöru á innlendan markað til að prófa hana fyrst með minni áhættu.

En vaxandi áhugi bænda mun eins og vaxandi áhugi heilbrigðisstétta leiða til aukins þrýstings á þjóðina um, að hún færi neyzlu sína í auknum mæli yfir í holla fæðu.

Jónas Kristjánsson

DV