Bandalag erkiklerka

Greinar

Athyglisvert afturhaldsbandalag hefur myndazt milli kaþólsku kirkjunnar í Vatíkaninu og róttækra leiðtoga íslams gegn uppkasti undirbúningsnefndar að ályktun mannfjölda- og þróunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í Kaíró í Egyptalandi á mánudaginn.

Orðalagið, sem fer í taugar hinna róttæku afturhaldsmanna, er í rauninni varfærnislegt, enda hefur það útvatnazt í meðförum 170 ríkja, sem hafa tekið þátt í undirbúningi ráðstefnunnar. En það miðar að auknum áhrifum einstaklinga, einkum kvenna, á fjölskyldumál.

Hinir guðfræðilegu róttæklingar telja, að orðalagið leggi blessun yfir fóstureyðingar og vestrænt lauslæti í kynlífi. Þessi túlkun þeirra er einkar frjálsleg, því að ályktunin fjallar fremur um, hvernig megi draga úr þörf fóstureyðinga og stuðla að ábyrgðartilfinningu fólks.

Flestir aðrir en róttæklingarnir telja, að nauðsynlegt sé að draga úr fólksfjölgun í heiminum. Bent er á Rúanda sem dæmi um vandann. Þar fjölgaði fólki frá 1950 til 1994 úr 2,4 milljónum í 8,4 milljón manns. Landið stóð ekki undir þessu, svo að úr varð illræmd borgarastyrjöld.

Íbúafjöldi jarðar hefur tvöfaldazt síðan 1950 og nemur nú 5,6 milljörðum. Mest hefur fólksfjölgunin orðið í ríkjum, þar sem minnstir eru möguleikar á að brauðfæða fjölgunina. 70% aukningarinnar eru í löndum, þar sem fjölskyldutekjur eru innan við 4.000 krónur á mánuði.

Andstaða klerka Vatíkansins og íslams við aðgerðir gegn fólksfjölgun endurspeglar kvenhatur þeirra. Það hefur farið vaxandi í Vatíkaninu í páfadæmi Jóhannesar Páls, sem hefur á mörgum sviðum reynt að færa klukkuna aftur á bak. Og kvenhatur íslamsklerka er alþekkt.

Klerkabandalagið hefur gengið svo langt, að sendimaður Páfastóls fór til Írans til að samræma aðgerðir með erkiklerkum Persa, sem þykja klerka fjandsamlegastir öllu því, sem minnir á vestrænan nútíma. Stjórn Írans sjálf hyggst þó taka þátt í ráðstefnunni í Kaíró.

Mörg ríki íslams hafa tekið þátt í fjölskylduáætlunum í anda frumvarpsins að Kaíró-ályktuninni, flest önnur en afturhaldsríki olíufursta á Arabíuskaga. Hin nýja andstaða er því afturhvarf frá nútíma, eins og hann hefur verið í löndum á borð við Egyptaland og Tyrkland.

Bakslag íslams birtist meðal annars í, að afturhaldsríkin Sádí-Arabía og Súdan ætla ekki að taka þátt í ráðstefnunni og þjóðarleiðtogarnir Tansu Ciller frá Tyrklandi og Khalida Zia frá Bangladesh hafa hætt við komu. Prestaháskólinn Al Azhar í Kaíró hamast gegn ráðstefnunni.

Sagnfræðingar leika sér að getgátum um, að þriðja heimsstyrjöldin muni geisa milli veraldlegra, vestrænna lýðræðisríkja annars vegar og hins vegar trúarlegra og afturhaldssamra ríkja íslams. Þeir benda á vaxandi baráttu róttækra íslamsklerka gegn vestrænum áhrifum.

Þótt afturhaldið kunni ekki að fara svo mikið úr böndum, er ástæða til að vekja athygli á þeim félagsskap, sem afturhaldssemi Jóhannesar Páls páfa hefur kallað yfir kaþólsku kirkjuna. Hann er að skipa henni í sveit gegn vestrænum nútíma, sem er eina birtan í nútímanum.

Hin veraldlegu nútímaríki á Vesturlöndum hafa fundið leið úr miðaldamyrkri fátæktar og grimmdar inn í vestrænt lýðræði, þar sem einstaklingar og fjölskyldur hafa margfalt betri möguleika en nokkru sinni áður í veraldarsögunni til að njóta fegurðar og menningar.

Með andstöðu sinni við grundvallarhugsjónir einstaklings- og fjölskyldufrelsis eru erkiklerkar kaþólsku og íslamstrúar að tefla sér í hlutverk Satans í nútímanum.

Jónas Kristjánsson

DV