Örlög ráða

Greinar

Fjárhagur þjóðarinnar mun alls ekki batna á næstu árum, heldur versna. Við höfum ekki enn náð botni kreppunnar, af því að árangursríkar veiðar togaraflotans við Svalbarða og í Barentshafi hafa mildað afleiðingarnar af samdrætti í þorskveiðum á heimamiðum okkar.

Ef áfram verður unnt að ná nokkurra milljarða króna búbót í þorski við Svalbarða og í Barentshafi á hverju ári, kemur það í stað minni þorskafla á heimamiðum. Það gefur sjómönnum miklar tekjur og heldur uppi frambærilegri rekstrarstöðu í sjávarútveginum í heild.

Aðrar greinar atvinnulífsins hafa í stórum dráttum lagað sig að nýjum og verri lífsskilyrðum. Hálfsársuppgjör ýmissa stórfyrirtækja sýna, að þeim hefur tekizt að halda sjó, til dæmis með því að fækka fólki á launaskrá og með því að rýra launakjör þess, sem eftir situr.

Þjóðin í heild hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni í þrengingum sínum. Það sést bezt af vöruskiptajöfnuðinum við útlönd, sem er afar hagstæður. Það felur í sér, að við borgum fyrir innfluttar vörur með útfluttum vörum og eigum samt mikinn afgang til að greiða niður skuldir.

Aðlögunin að kreppunni hefur ekki verið ókeypis. Stéttaskipting hefur magnazt og vaxandi fjöldi fólks býr hálfgerðu eymdarlífi á þjóðfélagsjaðrinum. Atvinnuleysi er mikið, þótt það sé hætt að vaxa, og er orðið að föstum áhrifavaldi í mótun nútímaþjóðfélags á Íslandi.

Á næsta ári verða tekjur af þorskveiðum á heimamiðum mun lægri en þær eru á þessu ári. Til þess að jafna upp þann missi verða tekjur af þorskveiðum í norðurhöfum að verða mun hærri en þær hafa verið að undanförnu. Telja verður ólíklegt, að slíkt muni takast.

Búast má því við, að efnahagsástandið verði heldur lakara á næsta ári en það er um þessar mundir. Það mun hægfara síga á ógæfuhliðina á svipaðan hátt og hefur verið að gerast á undanförnum misserum. Jafnframt eru langtímahorfur síður en svo bjartar.

Við höfum um langt skeið ofveitt þorsk og fleiri stofna. Við höfum ekki farið að ráðum fræðimanna á þeim sviðum, heldur teflt á tæpasta vað. Afleiðingin er sú, að þorskstofninn stendur ekki lengur undir væntingum um stóra árganga. Það er búið að ganga of nærri honum.

Auknar líkur eru á, að við lendum í sama þorskleysi og Færeyingar og verðum að stíga sama skref og Kanadamenn, það er að leggja niður þorskveiðar á heimamiðum um langt árabil. Ef við lendum í því sjálfskaparvíti, magnast kreppan snögglega í stað þess að aukast hægt.

Við ættum að nota 40.000 tonna árlega búbót í norðurhöfum til að minnka heimaaflann úr 155.000 tonnum í 115.000 tonn af þorski á ári. Þá værum við að nota búbótina til að reyna að byggja upp þorskstofninn heima fyrir. Okkur mun hefnast fyrir að gera þetta ekki.

Raunar er merkilegt, að ráðamenn þjóðarinnar skuli treysta sér til að skipuleggja óhófsafla á þorski gegn fróðustu manna ráðum og eiga um leið á hættu að verða einungis minnst í Íslandsssögunni sem mannanna, er báru ábyrgð á hruni íslenzka þorskstofnsins.

Tvennt kemur til greina. Bjartsýni möguleikinn er, að kreppan aukist nokkuð frá því sem nú er, nái botni 1995 eða 1996, haldist síðan í stórum dráttum til aldamóta og sennilega lengur. Svartsýni möguleikinn er, að þorskstofninn hrynji og kreppan verði illskeytt.

Við stjórnum ekki lengur örlögum okkar. Stjórnvöld hafa þegar smíðað þá gæfu, sem við eigum skilið. Svo er bara að bíða og vona, að allt fari á illskárri veg.

Jónas Kristjánsson

DV