Hvenær er nóg komið?

Greinar

Umræðan um vafasöm embættisverk fyrrverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði og fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefur fallið í hefðbundinn farveg. Þolandi umræðunnar kallar hana galdraofsóknir og ýmsum öðrum slagorðum, en forðast efnisatriði málsins sem allra mest.

Þetta dugir flokksbræðrum hans í kjördæminu mæta vel. Þeir segjast þjappa sér um hann. Þetta gerist alltaf í stjórnmálaflokkum, þegar foringjar lenda í vondum málum, ekki sízt í Alþýðuflokknum, sem orðinn er höfuðflokkur spillingarinnar, síðan Jóhanna sagði af sér.

Þolandi umræðunnar varð bæjarstjóri í ríku bæjarfélagi, sem hafði miklar álverstekjur umfram önnur sveitarfélög. Hann vandist því að geta haft um sig hirð skjólstæðinga og geta grýtt peningum í ýmsar áttir. Þennan ósið flutti hann síðan með sér yfir í ráðuneytið.

Þolandinn telur sig vera á gráu svæði eins og aðra stjórnmálamenn. Svo virðist, sem hann telji sig bara hafa verið að gera það sama og aðrir, sem komast í meirihlutaaðstöðu og fá völd út á það. Hann ofmetur spillingu annarra, sem ramba af og til út á gráa svæðið.

Munurinn á honum og öðrum stjórnmálamönnum, sem daðra við spillingu, er, að hann heldur sig sem mest á gráa svæðinu og leitast við að þenja það út. Hann hefur á skömmum stjórnmálaferli hlaðið upp mun lengri lista spillingarmála en aðrir stjórnmálamenn á löngum ferli.

Þegar gráa svæðið er þannig þanið út, sigla aðrir stundum í kjölfarið með tilvísun til þess, að hefð sé komin á hin spilltu vinnubrögð. Þannig grefur spillingin um sig fyrir tilverknað þeirra, sem framtakssamastir eru á sviðinu, svo sem umræddur bæjarstjóri og ráðherra.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur Alþýðuflokkurinn orðið að forustuflokki á sviði spilltra embættaveitinga. Hann hefur á ótrúlega skömmum tíma hlaðið upp sendiherrum og forstjórum í ríkiskerfinu, svo og nefndakóngum af ýmsu tagi og hirðmönnum á ævintýralaunum.

Auðvitað var ekki rúm fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur í slíku ráðherraliði. Hún var of heiðarleg til að haldast þar við. Enda er nú sagt í gráu gamni og alvöru, að Alþýðuflokkurinn sé bandalag þeirra, sem hafi náð embætti út á flokkinn og þeirra, sem ætla sér að gera það.

Ýmislegt bendir til, að kjósendur láti sér fátt um finnast, einkum ef stjórnmálamenn eru einnig dugmiklir á öðrum sviðum. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki, því að ráðherrann reyndist afar illa í heilbrigðisráðuneytinu og sprengdi kostnað langt upp úr fjárlögum.

Því er ekki víst, að Alþýðuflokkurinn komist upp með að hafa skýra forustu í spillingu og bjóða þjóðinni upp á ráðherra með lengstan lista spillingarmála á stytztum tíma. Því er ekki víst, að Alþýðuflokkurinn geti látið duga að þjappa sér utan um hinn gagnrýnda ráðherra.

Einhvern tíma verða kjósendur að stinga við fótum. Annars mun spillingin smám saman magnast við víkkun gráa svæðisins. Ítalir fundu sinn spillingarbotn afar seint og á miklu dýpi, en þeir fundu hann. Einhvern tíma verða Íslendingar að gera upp sakir á svipaðan hátt.

Í vetur mun koma í ljós, hvert hlutverk Alþýðuflokkurinn ætlar spilltasta ráðherranum í kosningunum, og í vor mun koma í ljós, hvert hlutverk kjósendur ætla spilltasta stjórnmálaflokknum í kosningunum. Kannski verða menn þá loksins búnir að fá nóg af sukkinu.

Einhvern tíma neyðast kjósendur til að afsanna kenningu úr leiðurum þessa blaðs, að þeir hafi þær áhyggjur einar af spillingu að komast ekki í hana sjálfir.

Jónas Kristjánsson

DV