Aldrei heyrt hans getið

Greinar

Fang Tseng hefur tvisvar hlotið gullverðlaun á Þriðja heims leikum fatlaðra. Hann er fótalaus kringlukastari í Kína og vinnur fyrir sér með því að selja gos og smávörur við þjóðvegi. Hann reiknaði með að fá að taka þátt í leikum ársins, sem voru haldnir í síðustu viku.

Í sumar kom í ljós, að Fang hafði misst fæturna, er skriðdreki Kínahers ók yfir hann á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Fang var rekinn heim og Kína sendi engan kringlukastara á leikana. Þar vannst kringlan á 12 metrum, en Fang hafði kastað 27 metra í sumar.

Deng Pufang er líka fatlaður, máttlaus neðan mittis. Hann fatlaðist árið 1968, þegar honum var ýtt út um glugga í menningarbyltingunni vegna föður hans, sem er hinn frægi Deng, ráðamaður að tjaldabaki í Kína. Deng Pufang er formaður velferðarráðs fatlaðra.

Deng yngri reyndi að fá stjórnvöld til að endurskoða brottrekstur Fangs, en fékk því ekki framgengt. Þegar vestrænir blaðamenn spyrja nú Deng yngra um þetta mál, segist hann ekki hafa hugmynd um, hver Fang sé. Hann hefur gersamlega strikazt úr minni Dengs yngra.

Sama er að segja um aðra ráðamenn, sem hafa komið að þessu máli. Enginn þeirra hefur nokkru sinni heyrt Fangs getið. Meðal þeirra er Li Peng forsætisráðherra, sem opnaði Þriðja heims leika fatlaðra að þessu sinni, nýkominn úr kurteisisheimsókn til Þýzkalands.

Li forsætisráðherra var sá, sem á sínum tíma gaf skipun um blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar. Hann er dæmigerður ráðamaður í Kína, fantur og fúlmenni eins og hinir. Við erum heppin, að hann skuli ekki hafa lagt leið sína um Keflavíkurflugvöll í kurteisisferðunum.

Fulltrúar Kína á alþjóðavettvangi eru fleiri. Í síðustu viku var Xu Huisi hershöfðingi í kurteisisheimsókn í bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Xu þessi var sá, sem framkvæmdi skipun Lis um blóðbað á Torgi hins himneska friðar. Hinir blóði drifnu gera því víðreist.

William Perry, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tók Xu með kostum og kynjum, viðraði sig upp við hann og hrósaði Kína opinberlega. Þetta er í anda þeirrar stefnu, að Bandaríkin verði að gera hosur sínar grænar fyrir ríki, sem verði helzta heimsveldi næstu aldar.

Kína nýtur svonefndra beztukjara viðskipta í Bandaríkjunum og notfærir sér þau til að selja Bandaríkjamönnum vörur, sem framleiddar eru af pólitískum þrælum í fangabúðum. Sjálfsagt hafa ráðamenn Kína bandaríska starfsbræður að háði og spotti heima fyrir.

Kínastjórn endurgeldur engan veginn stinamýkt Bandaríkjastjórnar. Kína er eina kjarnorkuveldið, sem eflir vígbúnað sinn um þessar mundir og hið eina, sem stundar tilraunir með kjarnorkuvopn. Kína er líka eina ríkið, sem beinir kjarnorkuvopnum að Bandaríkjunum.

Þótt ótal dæmi séu til viðvörunar, virðast bandarísk stjórnvöld ímynda sér, að núverandi stjórnvöld í Kína séu eilíf og þess vegna beri að vingast við þau og hunza stjórnarandstæðinga í Kína. Illmennastjórnin í Kína mun hins vegar hrynja eins og aðrar stjórnir kommúnista.

Hvað eftir annað hefur Bandaríkjastjórn fjárfest í erlendum skúrkum, sem hafa kvalið og kúgað þjóðir sínar. Þegar þeim hefur verið velt úr sessi, hefur Bandaríkjastjórn reynzt erfitt að ná góðu sambandi við arftakana. Samt lærir Bandaríkjastjórn aldrei af reynslunni.

Dæmi kringlukastarans Fengs sýnir raunverulegt óeðli þeirra ráðamanna Kína, sem vestrænir stjórnmálamenn, þar á meðal íslenzkir, eru að reyna að sleikja.

Jónas Kristjánsson

DV