Kjósendur í svefnrofunum

Greinar

Fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar og núverandi félagsráðherra er ekki einn á báti í misbeitingu valds til einkavinavæðingar. Hann kom að vísu eins og sprengja inn í spillinguna og hefur á skömmum tíma afrekað meira á því sviði en aðrir valdamenn til samans.

Svonefndir nornaveiðarar á fjölmiðlum hafa haldið áfram svokölluðum galdraofsóknum og fundið, að utanríkisráðherra Alþýðuflokksins hefur einnig verið drjúgur á sviðinu. Hann fór fremur hægt af stað, en hefur síðan aukið ferðina samkvæmt formúlunni, að allt vald spillir.

Utanríkisráðherra hefur á ferli sínum ráðið tólf alþýðuflokksmenn til ráðuneytisins og til starfa á Keflavíkuflugvelli, alla án auglýsingar á störfunum. Í öllum tilvikum gekk hann framhjá reyndu fólki í ráðuneytinu og á vellinum og spillti um leið starfsandanum.

Ráðherrann gróf undan ráðuneytisstjóranum í sumar, þegar hann lét hann fullyrða, að búksláttarfræðingur og fyrirhugað sendiherraígildi í London hefði formlega diplómatastöðu. Skömmu seinna varð ráðuneytisstjórinn að fífli, þegar ígildið fékk loks slíka pappíra.

Utanríkisráðherra hefur leikið ráðuneytið grátt á valdaferli sínum. Hann hefur meðhöndlað það eins og sandkassa, hrakið hæfan hafréttarfræðing úr starfi og hlaðið upp fólki, sem ekki getur unnið fyrir sér úti í þjóðfélaginu. Hann hefur gert ráðuneytið illa starfhæft.

Þótt þessi spilling hafi grafið um sig á nokkrum tíma og farið hægt vaxandi, hefur hún fallið í skugga sprengunnar úr Hafnarfirði, sem hefur verið umræðuefni fjölmiðla í þessum mánuði. Sameiginlegt í báðum tilvikum er, að forustuflokkur spillingar ræður ferðinni.

Alþýðuflokkurinn er orðinn svona spilltur, af því að ráðamenn hans hafa sannfært sig um, að kjósendur séu fljótir að gleyma og láti spillinguna ekki koma niður á flokknum. Með djarflegri framgöngu flokksbroddanna í kosningabaráttu megi hjálpa fólki til að gleyma.

Ráðamenn Alþýðuflokksins hafa líka sannfært sig um, að tiltölulega fáir kjósendur geri sér rellu út af spillingu og aðrir muni í staðinn halla sér að flokknum í von um feita bita af einkavinaborði valdsins. Og það er einmitt rétt, að kjósendur eru bæði áhugalitlir og gleymnir.

Ráðamenn Alþýðuflokksins vara sig hins vegar ekki á, að almennt stefnir stjórnkerfið hægt og sígandi í átt frá skömmtun og fyrirgreiðslu til fastra mynztra og reglna, sem mismuna ekki borgurum landsins. Aukin einkavinavæðing Alþýðuflokksins stefnir í öfuga átt.

Þótt kjósendur hafi ekki nógu miklar áhyggjur af spillingu, eru þeir vafalaust í stórum dráttum fylgjandi því, að Ísland færist smám saman í átt til siðmenningarríkja á því sviði. Það getur hefnt sín á Alþýðuflokknum að reyna að færa spillingarklukkuna aftur á bak.

Um þessar mundir mælist Alþýðuflokkurinn með minna en 6% fylgi. Það jafngildir, að þjóðin hafi að sinni hafnað flokknum sem marktækum þátttakanda í stjórnmálum. Ekki er víst, að ráðherrunum verði að þeirri von, að kjósendur hafi gleymt öllu í næstu kosningum.

Ef ættingja- og einkavinaflokkurinn fær verðuga ráðningu í næstu kosningum, hafa kjósendur lagt sitt af mörkum til að vara stjórnmálamenn og -flokka við að ganga of langt í spillingu. Slík viðbrögð kjósenda mundu vafalítið leiða almennt til hægfara samdráttar í spillingu.

Eftir allt, sem á undan er gengið, er orðið brýnt fyrir kjósendur að losna undan því ámæli, að þeir hafi hvorki greind né minni til að standa undir hlutverki sínu.

Jónas Kristjánsson

DV