Aðrir eru skárri

Greinar

Forsætisráðherra ver spillingu ráðherra og ráðuneytisstjóra með því að segja embættaveitingar ekki flokkspólitískari hér á landi en í öðrum löndum. Hann segir alls staðar tíðkast, að valdamenn ráði flokksbræður sína, og benti sérstaklega á Bandaríkin til samanburðar.

Í Bandaríkjunum er annað kerfi. Þar eru kosnir beint fjölmargir embættismenn, sem hér eru ráðnir ævilangt. Þar fylgja stjórnmálamönnum ýmsir aðstoðarmenn, sem fara líka, þegar lénsherrar þeirra fara úr embætti. Skjólstæðingar sitja ekki áfram, eins og sumir gera hér.

Án efa er minni pólitísk spilling í Bandaríkjunum en hér. Til dæmis mundu Bandaríkjamenn aldrei þola, að ráðherrar gerðu ekki skýran greinarmun á kostnaði í þágu hins opinbera, í þágu flokksins og í einkaþágu. Bandarískir ráðherrar sundurgreina slíkt í reikningum.

Einnig vilja Bandaríkjamenn, að háir og lágir séu jafnir fyrir lögum og reglum. Þar gætu ráðherrar ekki haft aðrar skattareglur fyrir sig en annað fólk og þar gætu ráðuneytisstjórar í heilbrigðisráðuneytum ekki rekið ráðuneytið eins og ættar- eða fjölskyldufyrirtæki.

Bandaríkjamenn þyldu ekki, að hluti af launum ráðherra væri dulbúinn sem dagpeningar á ferðalögum, sem bætast við allan ferðakostnað þeirra, sem greiddur er sérstaklega fyrir utan dagpeningana. Þar ferðast ráðherrar ekki til þess eins að ná hærri tekjum í vasann.

Ekki væri látið viðgangast í Bandaríkjunum, að valdamenn liggi á upplýsingum um geðþóttagreiðslur ráðherra, svokallaða skúffupeninga, sem hér hafa tíðkazt. Þar segja lög og reglur, að stjórnvöld skuli starfa fyrir opnum tjöldum, en ekki á bak við byrgða glugga.

Íslenzkir ráðherrar eru svo forstokkaðir, að menntaráðherra taldi sér kleift að gagnrýna innihald skúffupeningaskráa annarra ráðherra, á meðan hann vildi ekki gefa út eigin skrá. Segja má þó samráðherrum hans til hróss, að þeir höfðu hann ofan af þessu í tæka tíð.

Íslenzkir ráðherrar eru svo forstokkaðir, að fjármálaráðherra telur sér kleift að halda uppi ferðahvetjandi launakerfi í dagpeningaformi fyrir ráðherra þrátt fyrir mikla gagnrýni, á sama tíma og hann reynir að skera niður hálfa daga í greiðslum til óbreyttra liðsmanna.

Ef forsætisráðherra vill bera íslenzka spillingu saman við erlenda, á hann ekki að lasta þá, sem ekki eiga það skilið, svo sem Bandaríkjamenn. Hann á frekar að segja, að spilling sinna ráðherra sé ekki meiri en hjá harðstjórum í þriðja heiminum eða til skamms tíma á Ítalíu.

Nú eru Ítalir að reyna að hreinsa til hjá sér, enda grotnaði gamla flokkakerfið niður í eigin spillingu. Frakkar eru að byrja að draga ráðherra fyrir dóm. Í engilsaxneskum löndum og á Norðurlöndum hefur áratugum saman verið hreinna borð í pólitískum siðum en hér á landi.

Það er einmitt af slíkum ástæðum, að margir Íslendingar hafa í seinni tíð hneigzt til stuðnings við Evrópusambandið. Þeir eru orðnir svo þreyttir á forstokkuðum stjórnmála- og embættismönnum íslenzkum, að þeir vilja heldur fá að sjá útlend áhrif á gang íslenzkra mála.

Slík viðhorf eru hættuleg. Ef kjósendur gefast upp og telja innlenda umboðsmenn sína ólæknandi á sviði spillingar, er skammt í, að innihaldið skorti til að reka sjálfstætt ríki hér á landi. Við verðum að gera sjálf hreint fyrir okkar dyrum, en ekki mæna á lausn frá Evrópu.

Það er einmitt hornsteinn íslenzkrar spillingar í stjórnmálum og opinberum rekstri, að kjósendur hafa látið ráðamenn sína komast upp með að þenja út gráu svæðin.

Jónas Kristjánsson

DV