Færri ferðir – meiri afrek

Greinar

Unnt er að minnka ferðakostnað ráðuneyta með sjónvarpssímafundum, sem eru farnir að ryðja sér til rúms erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Fundarmenn líta þá hver annan í sjónvarpstækjum eins og sjá má af slíkum fundum, sem haldnir eru á vegum sjónvarpsstöðva.

Með lagningu ljósleiðara til Íslands og um Ísland hefur þessi tækni orðið raunhæf, þótt verðlagi sé enn haldið óeðlilega háu hjá símaeinokun ríkisins. Helztu ráðuneyti ferðagleðinnar þurfa að koma sér upp sameiginlegu myndveri til að spara embættismönnum ferðalög.

Ferðakostnaður ríksins nam fyrir tveimur árum tæpum 800 milljónum króna erlendis og sömu upphæð innanlands, samtals tæpum 1.600 milljónum. Það eru of háar tölur fyrir kvartmilljón manna þjóð. Með markvissri notkun símafunda má lækka þær um helming eða meira.

Auðvitað þarf að semja við erlenda mótaðila um, að þeir komi sér upp sömu tækni á hinum endanum. Það getur tekið nokkur ár að fá Evrópusambandið, Efnahagssvæðið, Norðurlandaráð og aðrar slíkar stofnanir til að átta sig á sparnaðinum við sjónvarpsfundatækni.

Á tæknitímum nútímans er orðið úrelt að nota dýr samgöngutæki til að þveitast í eigin persónu fram og til baka yfir úthafið til að sækja klukkustundar fund í Stokkhólmi eða Brussel. Bandaríkjamenn hafa þegar áttað sig á þessu og Evrópumenn munu fylgja á eftir.

Hin nýja tækni er sérstaklega mikilvæg fyrir fólk, sem býr tiltölulega afskekkt og þarf að verja miklum tíma til ferðalaga umfram þá, sem búa nær valdamiðjum landsins, álfunnar eða heimsins. Sjónvarpssímafundir jafna almennt aðstöðuna milli miðjunnar og jaðarsins.

Það kostar íslenzkan embættismann þrjá ferðadaga að sækja klukkustundar fund, en þarf ekki að kosta hann nema tvær stundir, ef hann fer bara í myndver ríkisins. Hann getur notað afganginn af tímanum til að vinna við hefðbundnar og eðlilegar aðstæður í ráðuneyti sínu.

Þannig gefst betri tími til að tryggja, að Ísland missi ekki af neinum fundum, sem snerta hagsmuni ríkisins. Ekki þarf að koma fyrir, að Alþjóða heilbrigðisstofnunin kasti íslenzkum tölum út úr ársriti sínu, af því að íslenzkur embættismaður nennti ekki að mæta á brýna fundi.

Einnig þarf ekki að horfa í mikinn ferðakostnað til að koma í veg fyrir, að Tyrkjum takist að láta kasta séríslenzkum bókstöfum úr flokki undirstöðubókstafa vestrænna tölvukerfa. Við getum leyft okkur að senda marga færa menn á símafund, ef hagsmunagæzla okkar er brýn.

Að nokkru leyti stafar hár ferðakostnaður ríkisins af ferðahvetjandi reglum, sem valda því, að ráðherrar leggjast í ferðalög til að laga til í heftinu sínu. Með næsta fjármálaráðherra, sem væntanlega verður siðaðri, má laga þetta atriði og auka áhuga ráðherra á myndversfundum.

Ekki þýðir að reyna að koma á fót þeim tæknisparnaði, sem hér hefur verið fjallað um, ef hann stríðir gegn persónulegum fjárhagsmunum ferðagarpa hins opinbera. Ef ferðalög hætta að vera tekjuauki, er hægt að fá þá til að líta málefnalegar á kosti símafunda í myndveri.

Raunar ætti það að vera kappsmál afskekktrar þjóðar að losna annars vegar úr viðjum íhaldssamrar og okurgjarnrar símaeinokunar og knýja hins vegar fjölþjóðlegar stofnanir til að taka upp fundatækni, sem jafnar aðstöðu smárra og afskekktra ríkja til þátttöku í samstarfi ríkja.

Um þessar mundir er tæknilega einmitt kominn rétti tíminn til að hefja aðgerðir á þessu mikilvæga sviði, sem í senn leiðir til aukins sparnaðar og aukins árangurs.

Jónas Kristjánsson

DV