Brengluð skilaboð

Greinar

Hæstiréttur og héraðsdómarar hafa verið að senda þau skilaboð til fólks, að það skuli ekki kæra ofbeldi, enn síður kynferðislegt ofbeldi og alls ekki kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Dómararnir muni gera kærendum lífið svo leitt, að þeir sjái eftir að hafa kært.

Lengst ganga dómarar í kærumálum vegna ofbeldis gegn börnum. Þeir neita að taka mark á framburði barna og fara alls ekki eftir lagaákvæðum um þyngd refsinga, ef þeir geta ekki fundið tæknilegar brellur til að eyða slíkum málum. Þeir hlífa afbrotamönnum á þessu sviði.

Ef þeir neyðast til að dæma afbrotamenn gegn börnum, nota þeir ekki tólf ára refsiheimildina, heldur dæma þá í þrjá mánuði skilorðsbundið, svo að þeir þurfa ekki að sitja inni. Þetta gera þeir, þótt um margendurtekin afbrot sé að ræða, svo sem nýlegt dæmi sannar.

Dómarar eru ekki einir um að valda vandræðum á þessu sviði. Rannsóknarlögregla hefur oft klúðrað málum af þessu tagi og raunar lengst af veitt kærendum svo grófar móttökur, að fólki finnst eins og verið sé að nauðga sér í annað sinn. Þess vegna þorir fólk ekki að kæra.

Athuganir benda eindregið til þess, að sáralítill hluti afbrota af þessu tagi sé kærður og að mörg þeirra, sem kærð eru, komist ekki á leiðarenda í kerfinu. Stafar það ýmist af tæknilegum örðugleikum við öflun sönnunargagna eða af áhugaskorti og vangetu rannsóknarmanna.

Til dóms koma aðeins fá mál, sem hafa þótt svo einföld og ljós og auðveld, að þorandi sé að fylgja þeim eftir. Þá taka dómararnir við, eyða málunum eða kveða upp dóma, sem eru svo ótrúlega vægir, að það jafngildir þriðju nauðguninni á kærendum slíkra mála.

Refsingar í dómum eru svo vægar, að þær mega teljast nánast engar og bætur eru einnig svo litlar, að þær mega engar teljast. Bætur eru svo aldrei greiddar, því að ríkið tekur ekki ábyrgð á þeim. Það greiðir sálgæzlu afbrotamanna, en neitar að borga fyrir þolendur.

Samanlagt myndar rannsókna- og dómstólakerfið múr utan um ofbeldisfólk, einkum kynferðislegt ofbeldisfólk og allra helzt það, sem beitir slíku ofbeldi gegn börnum. Þannig verður hver einstök nauðgun að þremur nauðgunum, annarri á rannsóknarstigi og þriðju á dómsstigi.

Kastljósið hefur að undanförnu beinzt að dómstólum landsins með Hæstarétt í broddi fylkingar. Eðlilegt er, að spurt sé, hvernig standi á hrapallegri meðferð þeirra á hverju málinu á fætur öðru, þannig að úr verður dómvenja, sem hlýtur að teljast í meira lagi ósiðleg.

Ef til vill ruglast dómarar í ríminu vegna réttmætra kenninga um, að dómar bæti ekki afbrotafólk. En það kemur bara ekki málinu við, því að markmið dóma er ekki að bæta eða lækna afbrotafólk, heldur að refsa því. Í lögum er talað um refsingu en ekki um lækningu.

Hitt er líklegra, að dómarar séu að einhverju leyti úti að aka í þjóðfélaginu, sumir hverjir sérvitrir og aðrir óhæfir, margir aldir upp í gömlum jarðvegi, þar sem peningaafbrot voru talin alvarlegri en persónuafbrot og nauðganir kannski hluti af eðlilegum gangi lífsins.

Með einhverjum hætti þarf þjóðfélagið að geta komið í veg fyrir, að dómarar sendi frá sér skilaboð, sem eru í misræmi við gildandi lög; í ósamræmi við þá stefnu löggjafar á síðustu árum að herða lög á þessu sviði; og í algerri andstöðu við helztu siðalögmál þjóðfélagsins.

Það grefur undan þjóðskipulaginu, ef opinbera kerfið hagar sér í veigamiklum atriðum á þann hátt, að það magnar vantrú og fyrirlitningu venjulegs fólks.

Jónas Kristjánsson

DV