Rökstudd bjartsýni

Greinar

Betri tíð er í vændum að mati almennings og forstöðumanna fyrirtækja. Búizt er við, að ekki þurfi áfram að fækka starfsfólki fyrirtækja, heldur sé fjölgun þess í vændum. Þetta eru meðaltalstölur, sem hafa reynzt vel við spár um, hvort þensla eða kreppa sé á næsta leiti.

Samkvæmt þessum væntingum hefur kreppan náð hámarki á þessu ári. Næsta ár ætti að verða betra, enda er raunar þegar komið í ljós, að atvinnuleysi á öndverðum vetri er heldur minna en það var á sama tíma í fyrra. Þensla er þannig þegar byrjuð að leysa kreppu af hólmi.

Minnkun atvinnuleysis hefur tvenns konar gildi. Annars vegar dregur það úr margs konar böli í lífi fólks og minnkar spennu og sundrungu í þjóðfélaginu. Hins vegar eflir það bjartsýni og framtak, sem eru forsenda þess, að þjóðfélagið missi ekki af framfaralestinni.

Þjóðin hefur staðið sig í kreppunni. Hún hefur kunnað fótum sínum forráð og lækkað rekstrarkostnað sinn. Það sést annars vegar af því, að álag á félagslega kerfið jókst ekki eins mikið í kreppunni og búast mátti við. Og hins vegar af hagstæðum vöruskiptajöfnuði við útlönd.

Þetta gildir ekki síður um fyrirtækin í landinu. Mörg hver hafa náð ágætum árangri í rekstri á þessu ári. Þau hafa náð af sér aukakílóum, meðal annars með sársaukafullum uppsögnum starfsfólks. Þess vegna eru þau nú reiðubúin til nýrra átaka og nýrra mannaráðninga.

Eini aðilinn, sem ekki hefur staðið sig, er ríkissjóður. Hann hefur verið illa rekinn, ekki rifað seglin eins og aðrir, heldur haldið áfram að safna skuldum. Þær hafa aukizt úr 120 milljörðum í 160 milljarða á kjörtímabilinu og eru orðnar mun meiri en eins árs velta ríkisins.

Þetta hefur þó ekki verið verra en svo, að verðbólgan hefur ekki látið á sér kræla. Hún gerir það raunar ekki enn, þótt fyrstu þenslumerkin séu að byrja í atvinnulífinu. Það verður stórsigur, ef veltan nær að aukast í þjóðfélaginu, án þess að verðbólgan fari af stað að nýju.

Allt eru þetta horfur á líðandi stund og geta snögglega breytzt til hins verra. Við lifum enn í veiðimannaþjóðfélagi, sem rís og hnígur með aflasveiflum. Við höfum mildað kreppuna með happdrættisvinningi í Smugunni, en vitum ekki, hversu langvinnur hann verður.

Loðnan hefur orðið okkur til hjálpar og sennilega er síldin nú að koma til skjalanna. Þannig hefur hvert happið rekið annað og dregið úr afleiðingunum af hruni þorskstofnsins á heimamiðum. Sum sjávarútvegsfyrirtæki hafa blómstrað, þótt önnur hafi koðnað niður.

Við höfum ekki borið gæfu til að nota happdrættisvinningana til að hlífa þorskstofninum á heimamiðum. Engar horfur eru á, að hann rétti við á næstu árum. Fram til aldamóta að minnsta kosti er hann ekki undir það búinn að leysa Smugu, loðnu og síld af hólmi.

Ef við lítum yfir allt sviðið, þarf að tempra það mat, að þjóðin hafi staðið sig vel í kreppunni. Hún hefur í stórum dráttum staðið sig vel, en eigi að síður vikið sér undan að taka fullum afleiðingum af hruni þorskstofnsins og alls ekki náð að hemja rekstur ríkisbúsins.

Aðalatriðið er þó, að ýmsir traustir mælikvarðar sýna batnandi tíð í þjóðfélaginu og að aukin bjartsýni fólks og forráðamanna fyrirtækja á sér raunhæfar forsendur. Við sjáum því fram á góðan vetur, þótt nokkur langtímamál séu enn á hverfanda hveli að hefðbundnum hætti.

Verðbólga þessa árs verður innan við 2%, atvinnuleysi innan við 5% og hagvöxtur er byrjaður á nýjan leik. Þetta eru staðreyndir, sem gefa tilefni til bjartsýni.

Jónas Kristjánsson

DV