Jöfnuður næst ekki

Greinar

Tveir stærstu þingflokkarnir munu koma í veg fyrir marktæka breytingu á misjöfnum atkvæðisrétti íslenzkra kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sendu þau skilaboð af sjónvarpsfundi á þriðjudaginn, að ekki mundi semjast um jafnan atkvæðisrétt.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins endurtók í sífellu, að ekki mundi semjast um að leiðrétta ástandið í einu lagi, heldur yrði að gera það í áföngum. Þar sem reynslan sýnir, að hver áfangi tekur tvö kjörtímabil, er hann að tala um jöfnun atkvæðisréttar á nokkrum áratugum.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins töluðu um millileiðir og bráðabirgðaleiðir í líkingu við það, sem hafa hingað til verið reyndar og hafa jafnan leitt til þess, að misræmi hefur vaxið að nýju og náð fyrra marki fyrir næstu breytingu.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins hyggjast bjóða kjósendum stækkun á atkvæði kjósenda úr um fimmtungi úr atkvæði upp í svo sem þriðjung úr atkvæði, sem síðan leki aftur úr þriðjungi úr atkvæði niður í fimmtung úr atkvæði.

Slíkt kák var síðast afsakað með því, að þannig væri hægt að leysa málið með einfaldri breytingu á kosningalögum án þess að breyta stjórnarskránni. Nú er slíkt ekki hægt lengur, svo að breyta þarf stjórnarskránni hvort sem er, jafnvel þótt kák verði fyrir valinu.

Svo virðist sem aðrir flokkar en þessir tveir geti sætzt á, að landið verði allt að einu kjördæmi. Stuðningur við þá aðferð nær raunar inn í þingflokk Framsóknar. Eitt kjördæmi hefur galla eins og aðrar lausnir, en tryggir þó bæði flokkum og kjósendum jafnan atkvæðisrétt.

Ef kjósendur fengju í kjörklefanum að raða frambjóðendum innan listanna, væri til viðbótar náð kostum, sem eru í líkingu við það, sem margir sjá í einmenningskjördæmum. Ennfremur væri þá hægt að leggja niður prófkjörin, sem eru að verða dýrkeypt vandræðabarn.

Mesti kostur eins kjördæmis er, að það eyðir þörfinni á að hlaupa upp til handa og fóta á svo sem átta ára fresti til að breyta stjórnarskránni, svo að misrétti kjósenda minnki nokkuð. Í einu landskjördæmi hafa allir kjósendur og allir flokkar alltaf heilt atkvæði.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir, að ekki muni nást samkomulag um þetta. Það er auðvitað hótun, sem verður að taka alvarlega, en segir kjósendum um leið, hvar Sjálfstæðisflokkurinn stendur í þessum mannréttindum. Hann vill hafa þau eins lítil og unnt er.

Gott var, að Framsóknarflokkurinn skyldi sýna sitt rétta afturhaldsandlit á sjónvarpsfundinum. Vegna hræringa í þingliði flokksins höfðu margir ímyndað sér, að Framsóknarflokkurinn væri til viðtals um marktækar leiðréttingar. Nú er staðfest, að svo er alls ekki.

Eins og línurnar hafa skýrzt, er eðlilegt, að stóru þingflokkarnir tveir taki saman höndum um sáralitlar breytingar, sem aðrir þingflokkar verði síðan kúgaðir til að styðja á þeim forsendum, að lítið sé betra en ekkert. Þetta er líka eðlileg byrjun á nýju stjórnarmynztri.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn láta svona, af því að þeir telja, að þeir kjósendur, sem hafa aðeins brot úr atkvæðisrétti, muni áfram sætta sig við það og ekki refsa þessum tveimur flokkum fyrir að koma í veg fyrir, að þeir fái heilan atkvæðisrétt.

Við komum því enn einu sinni að kunnuglegri staðreynd, að kjósendur fá eins og aðrir vesalingar yfir sig það böl, sem þeir eiga skilið, hvorki meira né minna.

Jónas Kristjánsson

DV