Hafnarhúsið endurvakið

Greinar

Verzlanir og veitingar efla mannlíf í gömlum bæjarhlutum. Þetta er alþjóðleg reynsla, sem rætt hefur verið um að nýta hér á landi með því að hafa Kolaport í Tollhúsi, smáverzlanir í Hafnarhúsi, stórmarkað í kastalanum við Tryggvagötu 15 og veitingar á öllum stöðunum.

Listasafn Errós í Hafnarhúsi er góð viðbót við þessar ráðagerðir, ef portið og efri hæðir hússins nægja slíku safni. Ekki er hins vegar ráð að víkja frá þeirri grundvallarhugmynd, að Hafnarhúsið og húsin í kring séu fyrst og fremst notuð til að draga fólk að gamla miðbænum.

Safninu hentar auðvitað betur að vera í miðbænum fremur en í útjaðri hans. Miklu meiri líkur eru á, að fólk notfæri sér safn, sem verður á vegi þess, en safn, sem er milli brauta á einum hinna stóru golfvalla, er borgarverkfræðingur og skipulagsstjóri þrá svo ákaft.

Errósafn hefði hvílzt í virðulegri einangrun að Korpúlfsstöðum, ef sá kostur hefði komið til greina vegna útgjalda. Errósafn í miðbæ Reykjavíkur er miklu líklegra til að verða lifandi safn, þótt minna verði. Gildi safns ræðst af auðveldum og áhugavekjandi aðgangi fólks.

Safn er að því leyti eins og banki eða ríkiskontór, að það dregur ekki sjálfkrafa að sér. Þess vegna eiga söfn ekki frekar en bankar eða ríkiskontórar að vera á jarðhæðum miðbæja. Þar eiga að vera verzlanir og veitingahús og önnur þjónusta, sem ekki þarf mikið rými.

Stofnanir á borð við bankana og Póst & síma hafa stuðlað að hnignun miðbæjar Reykjavíkur. Allar stofnanir, sem eru fyrirferðarmiklar við götu, eitra út frá sér. Langir og dyralausir útveggir eru fráhrindandi. Slíkar stofnanir eiga alls ekki heima á jarðhæðum miðbæjarhúsa.

Það væri gott fyrir Errósafn að hafa stuðning af þeirri starfsemi, sem rætt hefur verið um, að verði í höllunum þremur, sem mynda norðurhlið Tryggvagötu. Um leið getur safnið gefið til baka með því að veita Hafnarhúsinu listrænna innihald. Úr þessu getur orðið góð sambúð.

Bezt væri, ef safnið fengi portið og tvær efri hæðir hússins, þjónusta af ýmsu tagi aðra hæðina, verzlanir og veitingarekstur þá neðstu. Þannig er líklegast, að einstakir þættir starfseminnar styðji hver annan og þá þætti, sem ráðgerðir eru í stóru húsunum beggja vegna.

Vegna veðurfars í Reykjavík er æskilegt að hafa innangengt alla línuna frá strætisvagnahúsi, sem ráðgert er á bílastæðinu austan Tollhúss, um Tollhús og Hafnarhús, í vöruhúsið að Tryggvagötu 15. Með góðu skipulagi getur orðið úr lengjunni eins konar Kringla miðbæjarins.

Hugmyndina um sambýli verzlunar og menningar í Hafnarhúsi má færa yfir á Tollhús, ef aðgangur að efri hæðum þess verður gerður minna fráhrindandi en hann er nú. Ef hægt er að laða umferð úr Kolaporti upp á efri hæðirnar, opnast rými fyrir fleiri menningarsöfn.

Þetta eru ekki draumórar. Erlendis hefur víða tekizt að snúa vörn í sókn í nýtingu þreyttra miðbæja. Bezt hefur það tekizt, þar sem verzlun og veitingar eru andlitin, sem snúa að vegfarendum og draga þá inn, en innar og ofar taka við þjónusta og menning af ýmsu tagi.

Innan um aðra þjónustu þarf auðvitað að vera rými fyrir útibú og afgreiðsludeildir banka, pósts, síma, tolls og skatts. En það er alveg út í hött að fylla miðbæi af almennum skrifstofum slíkra stofnana. Reykjavíkurborg þarf að mestu að losna við slíka mammúta úr miðbænum.

Gott er, ef unnt verður tengja hugmyndina um Erró- safn í Hafnarhúsi við frábærar hugmyndir Þróunarfélags Reykjavíkur um nýtingu norðurhliðar Tryggvagötu.

Jónas Kristjánsson

DV