Greindarskortur

Greinar

Í ýmsum dómum Hæstaréttar að undanförnu hefur hann haft siðalögmál almennings að engu. Þegar hann dæmir þar á ofan sífellt í öðrum kanti heimilda um refsingu og skaðabætur, má efast um, að hann þekki landslög. Hann virðist vera úti að aka í þjóðfélaginu.

Þegar ráðherra getur ekki sjálfur tekið af skarið um, að hann sé orðinn flokki sínum og ríkisstjórn þvílík byrði, að hann lami getu stjórnarflokkanna til að mæta þjóðinni í kosningum að fáum mánuðum liðnum, má efast um, að hann skilji nokkuð í málavöxtum.

Greindarskortur háir Íslendingum. Við erum að reyna að halda uppi þjóðfélagi með fullri reisn milljónaþjóða, en getum það ekki fyllilega, af því að helztu stofnanir þjóðfélagsins eru fjölmennari en sem svarar framboði af hæfu fólki til að reka allar þessar stofnanir.

Við megum ekki heldur gleyma atgervisflótta, til dæmis í vísindum og viðskiptum. Margir hæfustu fræðimenn landsins hafa ílenzt við erlenda háskóla, af því að þeir fá annaðhvort ekki starf við sitt hæfi hér á landi eða af því að þeir vilja ekki reyna að lifa á sultarlaunum.

Atgervisflóttinn skaðar háskólamenntun innanlands og bætist ofan á slakan undirbúning margra nemenda úr grunn- og framhaldsskólum. Sumar deildir Háskólans hafa dregizt aftur úr hliðstæðum deildum erlendis vegna skorts á hæfum kennurum og hæfum nemendum.

Svipað ástand er í atvinnulífinu. Í sjávarútvegi eru ýmis dæmi um, að ríkjum ráða gamlir karlar, sem hvorki skilja né vilja skilja helztu lögmál viðskiptalífsins. Afleiðingin er sú, að sum sjávarútvegsfyrirtæki safna skuldum og eru á hvínandi kúpunni, þótt önnur hagnist vel.

Svona verður ástandið, þegar ríkjandi smábyggðastefna knýr þjóðfélagið til að reyna að koma í veg fyrir, að fyrirtæki fái eðlilegt andlát eða renni inn í þau, sem betur eru rekin. Ef Darwinslögmálið fengi meiru að ráða, væru færri forstjórar og betri í sjávarútvegi.

Um opinbera geirann í þjóðfélaginu þarf ekki að hafa mörg orð. Þar er hver silkihúfan upp af annarri. Fólk, sem ekki getur unnið fyrir sér með eðlilegum hætti, hefur gengið fram í stjórnmálaflokkum til að láta þá útvega sér störf, stöður og stóla hjá hinu opinbera.

Afleiðingin er, að stórir þættir hins opinbera lúta alls engri rekstrarstjórn, heldur kjaga áfram af gömlum vana og sumpart hreinu tilgangsleysi. Sumar eftirlitsstofnanir hafa þar á ofan aðstöðu til að efna til vandræða úti í atvinnulífinu. Sumar skattstofur drepa þannig tímann.

Niðurstaðan af þessu öllu vekur spurninguna um sjálfstæði þjóðar, sem telur 260.000 manns. Getum við haldið áfram að vera sjálfstæð þjóð, þegar umheimurinn gerir sífellt harðari kröfur um aukna framleiðni? Munum við fylgja á eftir Færeyingum sem úrelt fyrirbæri?

Færeyingar fóru á hausinn vegna lélegra ráðamanna í stjórnmálum og atvinnulífi. Við erum fleiri og getum því mannað fleiri pósta með sóma. Samt eru mikilvægustu störfin fleiri en svo, að við getum mannað þau með sóma og oft vilja ráðamenn ekki manna þau með sóma.

Ef við viljum áfram vera sjálfstæð þjóð fram á næstu öld, þurfum við að fækka smákóngunum í landinu og vanda betur val þeirra, sem eiga að hafa forustu í stjórnmálum, vísindum, atvinnulífi og opinberum rekstri. Við þurfum að hafa fáa kónga og velja þá rétt.

Setja ber tímamörk á embættismenn, létta fyrirtækjum að verða gjaldþrota og koma upp siðalögmálum í stjórnmálum til að gera greindarskortinn bærilegri.

Jónas Kristjánsson

DV