Barnaskattmann

Greinar

Um nokkurt skeið hefur Friðrik Sophusson fjármálaráðherra verið skattakóngur þeirrar stéttar. Sérstaklega hefur hann verið duglegur við að finna upp og hækka ýmis gjöld, sem hann telur sjálfum sér trú um, en engum öðrum, að séu ekki skattar, heldur þjónustugjöld.

Skattakóngurinn hefur með ýmsum hætti komið skattheimtu ríkisins töluvert upp fyrir það, sem var í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrirrennara hans. Nýjasta uppfinning Friðriks er barnaskatturinn, sem nú leggst á sölulaun, sem börn fá fyrir ýmiss konar sölumennsku.

Fyrir þetta afrek verður Friðrik hér eftir réttnefndur Barnaskattmann. Hann ber ábyrgð á þessum nýja skatti, þótt hann reyni í hugleysi að skjóta sér á bak við ónafngreinda embættismenn í kerfinu. Það er pólitísk ákvörðun, en ekki embættisleg, að taka upp nýja skattheimtu.

Barnaskatturinn á sér stoð í lögum frá 1988. Þá vildu embættismenn túlka lögin á þann hátt, sem nú hefur verið gert. Þá var tekin pólitísk ákvörðun um að túlka lögin öðruvísi. Þegar nú er tekin ákvörðun um að breyta þeirri túlkun, er það ekkert annað en pólitísk ákvörðun.

Barnaskatturinn er ekki greindarlegur skattur. Hann kostar mjög mikla skriffinnsku, en gefur lítið í aðra hönd. Skriffinnskukostnaður ríkis og fyrirtækis á hvert barn nemur 2.015 krónum á ári. Það er herkostnaðurinn við hugsjón Barnaskattmanns í embætti fjármálaráðherra.

Dæmi verða til um börn, sem skráð verða í bókhald fyrirtækis með sölulaun upp á 26 krónur á árinu fyrir sölu á einu eintaki. Af þessari upphæð á barnið að greiða eina krónu og fimm tíu og sex aura til Barnaskattmanns og fyrirtækið átta tíu og þrjá aura til viðbótar.

Samtals fær ríkið tvær krónur og þrjátíu og níu aura í tekjur á móti 2.015 króna kostnaði málsaðila í pappírs-, póst- og launakostnaði vegna skattsins. Þetta er án efa langmesti taprekstur, sem þekkist í þjóðfélaginu um þessar mundir, verðugur minnisvarði um lélegan pólitíkus.

Embættismenn, sem hafa lítið að gera, eru sambandslitlir við umheiminn og gætu raunar tæpast unnið fyrir sér úti í lífinu, mega láta sér detta ýmislegt vitgrannt í hug, af því að þeir verða aldrei dregnir til ábyrgðar, þótt þeir hugsi ekki formsatriði sín til leiðarenda.

Ráðherrann vissi vel, að fyrirrennari hans hafði hafnað þessari skattheimtu, af því að hann sá, að hún borgaði sig ekki. Barnaskattmann getur því ekki kennt öðru um en eigin greindarskorti að hafa byrjað skattheimtu, sem er svona dýr í rekstri og gefur svona lítið í aðra hönd.

Það þarf óvenjulega menn til að efna til kostnaðar upp á meira en tvö þúsund krónur til að ná í tekjur, sem nema í sumum tilvikum aðeins rúmlega tveimur krónum. Það Íslandsmet Friðriks Sophussonar í taprekstri á skattheimtu verður sennilega aldrei slegið.

Barnaskattmann hefur reynt að skýla sér á bak við embættismenn. Það kemst hann ekki upp með, því að hann einn tók hina pólitísku ákvörðun um að breyta fyrri pólitískri ákvörðun fyrirrennarans. Með flóttanum bætir hann hugleysi ofan á önnur sjálfskaparvíti.

Barnaskatturinn er aðeins nýjasta dæmið af mörgum um lélega frammistöðu Friðriks í embætti fjármálaráðherra, allt frá einstæðri skuldasöfnun ríkissjóðs yfir í vanefndir á undirskrifuðum samningum, svo sem illræmt er orðið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Barnaskattmann verður augljós myllusteinn um háls flokks síns og ríkisstjórnar, þegar kjósendur líta fyrir kosningar yfir feril hans í fjármálaráðuneytinu.

Jónas Kristjánsson

DV