Harmleikur

Greinar

Afsögn félagsráðherra á blaðamannafundi í gær var harmleikur í beinni útsendingu. Ráðherranum var svo brugðið, að spyrja má, hvort ekki hefði verið miklu betra fyrir hann eins og svo marga aðra, sem líða fyrir mál hans, að hann hefði sagt af sér nokkrum vikum fyrr.

Ljóst er af svanasöngi ráðherrans, að hann telur sig miklu órétti beittan. Embættisfærsla hans sem ráðherra hafi í flestu verið í samræmi við lög og hefðir og að hin sárafáu “mistök” hans hafi ekki verið meiri eða merkilegri en annarra núverandi og fyrrverandi ráðherra.

Svo virðist sem fráfarandi ráðherra trúi því sjálfur í einlægni, að skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfesti nokkurn veginn alveg sjónarmið hans sjálfs í hinum umdeildu málum. Samkvæmt því hefur hann ekki lært neitt af hremmingunum og telur sig vera fórnardýr ofsókna.

Þetta þýðir, að hann heldur áfram að vera varaformaður flokks síns og líklega einn helzti frambjóðandi hans í komandi kosningum. Vandamál hans halda því áfram að vera vandamál Alþýðuflokksins, þótt ríkisstjórninni hafi tekizt að koma myllusteininum af hálsi sér.

Ýmis efnisatriði í vörn hins fyrrverandi ráðherra eru að nokkru leyti réttmæt. Aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn og öðrum fyrri hafa gert hluti, sem stríða gegn almennum siðferðissjónarmiðum. Þeir hafa gert mistök eins og það heitir á máli hins ofsótta ráðherra.

Munurinn á honum og hinum er fyrst og fremst tvenns konar. Í fyrsta lagi hafa hremmingar hans hlaðizt upp á skömmum tíma. Hann skellti sér út á gráa svæðið um leið og hann varð ráðherra og var þar löngum stundum, meðan aðrir ráðherrar hættu sér þangað endrum og eins.

Í öðru lagi er líklegt, að almenn siðferðissjónarmið í þjóðfélaginu hafi orðið harðari með árunum. Hugsanlegt er, að formaður Alþýðubandalagsins yrði að segja af sér sem ráðherra, ef hann væri núna að gefa Þormóð ramma og kaupa ímyndaðar vörur af Svörtu og hvítu.

Raunar ættu fjölmiðlar að verða við áskorun hins fráfarandi ráðherra og bera saman athugasemdir Ríkisendurskoðunar við embættisfærslu hans og annarra ráðherra í þessari ríkisstjórn og öðrum fyrri. Væntanlega stuðla aðrir ráðherrar að opinberun athugasemdanna.

Að loknu fárviðrinu, sem leitt hefur til afsagnar ráðherrans, er einnig eðlilegt, að spurt sé, hvort eitthvert gagn hafi orðið af öllu saman, annað en það, að ráðherra fái nú tækifæri til að ná réttum litum og taka gleði sína á ný eftir hvíld frá linnulausri orrahríð stjórnmála.

Sennilega munu ráðherrar fara varlegar en áður. Þeir munu ekki hætta sér eins mikið og áður út á gráa svæðið. Þeir eru þegar farnir að birta skrár yfir ráðstöfun skúffupeninga sinna og væntanlega fara þeir senn að birta athugasemdir Ríkisendurskoðunar um sjálfa sig.

Hitt er svo líka rétt, að séu ráðherrar eins harðskeyttir og sannfærðir um mátt sinn og dýrð og sá, sem nú fór frá, munu þeir einnig fresta í lengstu lög að draga rétta ályktun af hremmingum, sem þeir munu lenda í af völdum of tíðra ferða sinna út á gráa svæðið.

Öllum nýjum valdamönnum er brýnt að geta í tæka tíð skipt um skoðun, ef siðferðishugmyndir þeirra reynast ekki falla alveg að almennum siðferðishugmyndum eins og þær eru á hverjum tíma. Annars geta afleiðingar orðið eins og í þeim harmleik, sem við höfum nú séð.

Að leiðarlokum var ræðupúltinu komið táknrænt fyrir úti í horni, þar sem ráðherrann stóð innikróaður og særður og lýsti sig blásaklaust fórnardýr ofsókna.

Jónas Kristjánsson

DV