Arafat er leppur

Greinar

Yasser Arafat er lítið annað en leppur Ísraelsstjórnar í Palestínu. Hann hefur sáralítið fengið í hlut Palestínumanna í samningum við Ísraelsstjórn. Þess vegna verður hann sífellt óvinsælli á herteknu svæðunum og enn óvinsælli á heimastjórnarsvæðunum í Gaza og Jeríkó.

Leppstjórn Arafats hefur misheppnazt. Hann hefur lítið reynt að fá hæft fólk til starfa fyrir stjórnina og eingöngu notað trygga stuðningsmenn úr þrengsta hópi Arafatista í Frelsissamtökum Palestínumanna. Afleiðingin er hreint ráð- og getuleysi í heimastjórninni.

Það er almenn þjóðfélagsregla, að tryggustu stuðningsmennirnir eru einmitt þeir, sem ekki geta unnið fyrir sér með öðrum hætti en þeim að vera tryggir stuðningsmenn. Þeir, sem eitthvað geta, hafa ætíð einhverja sjálfstæðistilburði, sem falla einræðissinnum illa í geð.

Jámenn Arafats kunna ekki til verka og því fer flest í handaskolum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna. Nú eru lögreglumenn hans meira að segja farnir að drepa Palestínumenn í hrönnum í uppþotum. Það sýnir vel, að Arafat og hirð hans hafa misst tökin.

Grundvöllur vandræðanna er, að Ísraelsstjórn notfærði sér veikleika Arafats út í yztu æsar og valtaði yfir hann í friðarsamningum. Græðgi og yfirgangur Ísraelsstjórnar hefur grafið undan viðsemjanda hennar og gert hann að fyrirlitlegum leppi í augum Palestínumanna.

Ísraelsstjórn hefur haldið áfram að leyfa byggingaframkvæmdir landnema á herteknu svæðunum. Hún hefur haldið áfram að leyfa landnemum að bera vopn og ógna vopnlausum Palestínumönnum. Ísraelsmenn hafa haldið áfram að vera “Herrenvolk” í Palestínu.

Ísraelsstjórn hefur hert kröfur um, að lögreglumenn og hermenn hennar beiti pyndingum gegn handteknum Palestínumönnum, svo sem Amnesty Internatonal hefur upplýst. Ísraelsstjórn heldur áfram margvíslegri iðju, er alþjóðlega flokkast sem glæpir gegn mannkyni.

Baráttan við Palestínumenn hefur smám saman verið að krumpa Ísraela og breyta þeim í hryðjuverkaþjóð með hryðjuverkastjórn. Þetta hefur gerzt í skjóli Bandaríkjanna, sem hafa fjármagnað Ísrael og verndað ríkið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra.

Ástandið hefur versnað síðan Clinton varð forseti Bandaríkjanna. Hann er eins og tuska í höndum Ísraelsstjórnar. Þetta hefur aukið áræði hennar og komið í veg fyrir, að hún sýndi nægan sveigjanleika gagnvart leppstjórn Arafats, svo að hún nyti fylgis Palestínumanna.

Hrokinn og hefnigirnin hefna sín með þeim hætti, að friðarsamningur Ísraels og Palestínu verður marklítill. Raunverulegur friður næst ekki á svæðinu nema tekið sér eitthvert tillit til óska og vona Palestínumanna, sem lengi hafa verið kúgaðir af Ísrael og Arafat.

Friður milli Ísraelsstjórnar og Husseins Jórdaníukonungs breytir heldur ekki miklu, af því að Hussein er jafn veikur og Arafat. Hann gerði sömu mistök og Arafat, þegar hann studdi Saddam Hussein Íraksforseta í Persaflóastríðinu og er enn að súpa seyðið af því.

Arafat og Hussein eru fúsir til að skrifa undir hitt og þetta, af því að þeir eru að reyna að vinna sig aftur í álit á Vesturlöndum. Arafat er auk þess að reyna ná persónulegum völdum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna á kostnað keppinauta sinna meðal landa sinna.

Vegna alls þess komast Hamas og aðrir róttækir hópar að hjörtum Palestínumanna og eru að verða hinir raunveruleg umboðsmenn drauma þeirra um eigið ríki.Jónas Kristjánsson

DV