Gerviárásir

Greinar

Flugher Atlantshafsbandalagsins tókst ekki að gera flugvöll Bosníu-Serba í Udbina ónothæfan. Þótt 39 árásarflugvélar tækju þátt í áhlaupinu, tókst aðeins að sprengja nokkrar holur í flugbrautarendana, svo sem sást á ljósmyndum, sem teknar voru á vegum Serba á jörðu niðri.

Merkilegt er, hve auðvelt herforingjum og öðrum ráðamönnum Atlantshafsbandalagsins reynist jafnan að ljúga fjölmiðla fulla. Til dæmis sagði International Herald Tribune í aðalfyrirsögn á forsíðu: “Air Base Destroyed”. Virtist blaðið trúa fréttum frá Nató bókstaflega.

Reynslan ætti að hafa kennt fjölmiðlum að taka með varúð fullyrðingum frá kölkuðum stofnunum á borð við Atlantshafsbandalagið og Sameinuðu þjóðirnar. Þessar stofnanir hafa langa reynslu í að fara með rangt mál til að reyna að dylja getuleysi sitt og tilgangsleysi.

Hin misheppnaða árás á flugvöllinn í Udbina átti að sýna Serbum, að Sameinuðu þjóðirnar og Atlantshafsbandalagið meintu hótanir sínar í alvöru. Niðurstaðan var þveröfug. Sú árás og þær síðari staðfestu vissu Serba um, að þetta væru marklaus pappírstígrisdýr.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkir hverja ályktunina á fætur annarri um Bosníu, en fer síðan ekki eftir neinni þeirra. Atlantshafsbandalagið þykist síðan reiðubúið til að vera eins konar lögga fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna, en reynist óhæft til hernaðaraðgerða.

Bretland og Frakkland hafa forustu um að drepa aðgerðum á dreif og skortir ekki fylgiríki. Sáttasemjarar eru sendir á vettvang til að fá Serba til að skrifa undir hvern samninginn á fætur öðrum, þótt reynslan sýni, að þeir rjúfa alla samninga innan klukkustundar.

Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti fyrir afdankaða stjórnmálamenn á borð við Owen hinn brezka og Stoltenberg hinn norska að vera hafðir að fífli hvað eftir annað á gamals aldri og halda samt áfram að reyna að útskýra framferði Serba og finna leiðir til að verðlauna þá.

Langdregið sáttastarf af hálfu vestrænna ríkja hefur gefið Serbum svigrúm til landvinninga og þjóðahreinsunar. Vopnasölubann vestrænna ríkja á Bosníu hefur tryggt Serbum yfirburði í herbúnaði. Og marklausar hótanir úr vestri hafa sannfært Serba um, að öllu væri óhætt.

Auðnuleysi og ræfildómur þeirra, sem ráða ferð vestrænna ríkja, Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins, hefur lengi mátt vera öllum ljós, sem fylgzt hafa með glæpunum í Bosníu. Samt halda fjölmiðlar áfram að tyggja upp yfirklórið og gera það að sínum orðum.

Harmleikurinn í Bosníu hefur staðfest, að tilverurétti Atlantshafsbandalagsins lauk, þegar óvinur þess í austri hætti að vera til. Þegar engin Sovétríki og ekkert Varsjárbandalag voru lengur á lífi, missti Nató fótfestuna og hefur ekki fundið sér neinn nýjan starfsvettvang.

Atlantshafsbandalagið er allt of dýrt lík í lest Vesturlanda. Ríkjahópur, sem þolir ekki lengur að sjá blóð, getur ekki haldið úti hernaðarbandalagi og verið í skjóli þess með hótanir út og suður. Slíkt verður ekkert annað en aðhlátursefni allra þeirra, sem hótað er.

Víetnam hrakti Bandaríkjaher í loftið í Saigon. Sýrland hrakti Bandaríkjaher í sjóinn við Líbanon. Stríðsherra hrakti her Sameinuðu þjóðanna í sjóinn við Sómalíu. Íraksforseti ógnar enn landsmönnum og nágrönnum. Serbar og Bosníu-Serbar hafa umheiminn í flimtingum.

Vesturveldin hafa ekki bein í nefi til að stunda löggæzlu. Þau eiga að hætta þykjustuleik á því sviði, enda komast undanbrögðin og ósannindin upp um síðir.

Jónas Kristjánsson

DV