Vandinn hófst í vor

Greinar

Hluta erfiðleikanna við samninga um kjör sjúkraliða á sjúkrastofnunum í Reykjavík er hægt að rekja aftur til síðasta vors. Þá var hafið flokkspólitískt ferli, sem á eftir að reynast þjóðinni dýrkeypt. Þar voru að verki fjármálaráðherra og þáverandi borgarstjóri í Reykjavík.

Mikil pólitísk örvænting einkenndi þennan tíma. Fjármálaráðherra og þáverandi borgarstjóri voru reiðubúnir til að fórna hagsmunum þjóðarinnar til að kaupa kosningasigur í Reykjavík. Þess vegna sömdu þeir við hjúkrunarfræðinga daginn fyrir borgarstjórnarkosningar.

Í rauninni fólst meiri spilling í aðgerð tvímenninganna en í tilfallandi fyrirgreiðslum fyrrverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði og fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Tvímenningarnir notuðu aðgang sinn að almannafé til að reyna að koma í veg fyrir stjórnarskipti í Reykjavík.

Komið hefur í ljós, að samningur fjármálaráðherra og fyrrverandi borgarstjóra við hjúkrunarfræðinga í vor fól í sér meiri hækkanir og meiri kostnað en fullyrt var á þeim tíma. Kostnaðaraukinn nemur sennilega um 15% og á eftir að enduróma lengi á vinnumarkaði.

Kosningasamningurinn við hjúkrunarfræðinga hlýtur að hafa fordæmisgildi fyrir sjúkraliða að þeirra mati. Þeir vilja hafa hliðsjón af nýgerðum samningum. Auk þess eru sjúkraliðar enn meiri láglaunastétt en hjúkrunarfræðingar og geta því krafizt enn meiri hækkunar.

Fjármálaráðherra fer með rangt mál á Alþingi, er hann segir sjúkraliða hafa hækkað í launum umfram aðrar stéttir á undanförnum árum. Fyrir því er enginn fótur. Hins vegar er löng reynsla af því, að þessi fjármálaráðherra trúir því, sem honum hentar hverju sinni.

Harkan í vinnudeilu fjármálaráðherra og sjúkraliða stafar að verulegu leyti af forsendum, sem fjármálaráðherra bjó sjálfur til í vor, þegar hann var að reyna að verja flokk sinn falli í borgarstjórnarkosningunum. Þá sáði hann til endurkomu séríslenzku verðbólgunnar.

Ekki er nóg með, að sjúkraliðar miði við 15% hækkun hjúkrunarfræðinga plús láglaunaprósentu handa sér. Láglaunahópar utan heilbrigðisgeirans ætla líka að miða við kosningasamninginn, þegar þeir fara í gang um eða eftir áramótin. Það verða líka erfiðir samningar.

Ríkisstjórnin horfist í augu við að missa verðbólguna af stað aftur rétt fyrir alþingiskosningar í apríl, af því að fjármálaráðherra tók í vor þá skammsýnu ákvörðun að misnota almannafé til að reyna að kaupa kosningasigur handa fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík.

Erfitt verður að vinda ofan af því ferli, sem fór af stað í vor. Mikil átök mun kosta að reyna það. Reynslan sýnir, að ríkisstjórnir eru ekki harðar af sér, þegar kosningar og kjósendur eru í aðsigi. Þá fyrst missa þær tökin á fjármálum ríkisins og fara að reyna að kaupa sér frið.

Þegar ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir fara að átta sig á, hvaða kaleikur hefur verið færður þeim fyrir tilstilli fjármálaráðherra og fyrrverandi borgarstjóra, án þess að atkvæðakaupin lánuðust, er hætt við, að þessir aðilar kunni ráðherranum litlar þakkir fyrir framtakið.

Oft skáka íslenzkir valdhafar í því skjólinu, að það sé vandi síðari tíma og hugsanlega annarra aðila að hreinsa upp eftir óvandaða meðferð valdhafanna á fjármunum almennings fyrir kosningar. Það muni gleymast á nokkrum árum. En nú koma skuldaskilin óvenjulega snemma.

Ljóst virðist að minnsta kosti, að afleiðingar kosningasamningsins í vor verði fyrirferðarmiklar á aðfaratíma alþingiskosninganna, sem verða eftir nokkra mánuði.

Jónas Kristjánsson

DV