Enn nýtur ekkert íslenzkt matarhús þeirrar náðar að fá eina Michelin-stjörnu. Líklega við hæfi, ekkert býður þann lúxus í umbúnaði, sem til þarf. Michelin-stjarna snýst um meira en matreiðslu. Því er enginn kafli um Ísland í Evrópubók Michelin og það skaðar ferðaþjónustuna. Til dæmis kemur ekki enn í ljós, hvort eitthvert veitingahús á skilið einn Michelin-haus, sem táknar mikil gæði fyrir skaplegt verð. Einkum fækkar það eyðslusömum, sem annars kæmu. Bill Clinton og almenningur eru sátt við hamborgara eða pítsu, jafnvel humarsúpu á Sægreifanum og pulsu með öllu og rigningu á Bæjarins beztu. En stjörnuleysið er hættuspil.