Hvar er ráðdeildin?

Greinar

Reykjavík hafði í gamla daga sérstöðu meðal sveitarfélaga. Miðað við höfðatölu skuldaði hún lítið sem ekkert. Nú er hins vegar svo komið, að skuldir borgarinnar á hvern íbúa eru komnar nokkurn veginn í sömu stærðargráðu og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Aðhaldssemin í þessum efnum var slík í gamla daga, að skuldabyrði borgarinnar hélzt nánast óbreytt árum saman. Sem dæmi má nefna, að á föstu verðlagi ársins 1994 jukust skuldir borgarinnar á mann úr 16 þúsund krónum árið 1978 í 18 þúsund krónur árið 1984.

Hnignunin hófst fljótlega eftir að Sjálfstæðisflokkurinn náði aftur meirihluta í borginni eftir eitt kjörtímabil vinstri meirihluta. Þannig voru skuldir á mann á föstu verðlagi komnar upp í 51 þúsund krónur árið 1991. Þær höfðu nærri þrefaldazt á mann. Á föstu verðlagi.

Hnignunin varð síðan að hruni. Á þessu ári, þremur árum síðar, hafa skuldirnar tvöfaldazt á mann á föstu verðlagi. Þær eru komnar upp í 104 þúsund krónur. Um þetta er ekki hægt að segja neitt annað en, að fjármálastjórnin hafi farið úr böndum og breytzt í óráðsíu.

Hægt er að reikna þetta á ýmsan annan hátt og niðurstaðan verður jafnan nokkurn veginn hin sama. Skuldir borgarinnar sem hlutfall af skatttekjum hennar hafa til dæmis aukizt á fjórum árum úr 45% í 105%. Borgin skuldar semsagt núna meira en heilar árstekjur sínar.

Ástandið er svo sem ekki alveg eins vont og í þeim nágrannasveitarfélögum borgarinnar, sem lakast hefur verið stjórnað í peningamálum. En breytingin er geigvænleg á stuttum tíma. Borgin hefur breytzt úr fyrirmyndarsveitarfélagi í fjármálum í venjulegan sukkbæ.

Athyglisvert er, að þetta gerist fyrir tilverknað stjórnmálaflokks, sem hingað til hefur verið talinn til hægri í stjórnmálum. Í gamla daga var stundum sett jafnaðarmerki milli hægri stefnu og aðhalds í fjármálum. Sú pólitíska forsenda er brostin með öllu í Reykjavík.

Það segir nokkra sögu um fallvaltleik gamalla forsendna, að svipuð öfugþróun hefur orðið hjá ríkinu undir handleiðslu fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Skuldir ríkisins hafa magnazt á kjörtímabilinu, hvort sem reiknað er á íbúa eða á árlegar tekjur ríkissjóðs.

Ástandið er orðið þannig, að þeir kjósendur, sem leggja meiri áherzlu á skynsamlegan og hófsaman rekstur hins opinbera en önnur atriði, hvort sem er hjá ríki eða borg, hafa ekki lengur í neitt hús að venda og allra sízt í hús Sjálfstæðisflokksins, þar sem sukkarar ráða ríkjum.

Í stað valdamanna með langtímasjónarmið höfum við fengið einnota pólitíkusa, sem lifa í núinu og sjá ekki út yfir kjörtímabilið. Þeir eru ánægðir, ef þeir geta flotið frá degi til dags, alveg eins og þeir séu vissir um, að einhverjir aðrir verði til að hreinsa upp eftir þá.

Þess konar stjórnmálamenn endast auðvitað ekki lengi, því að fortíðin hlýtur alltaf að elta þá og bíta í hæla þeim. Þeir missa traust almennings og eru ekki nothæfir í annað sinn. Sífellt verður að reyna að hanna og markaðssetja nýja og nýja töfralækna í pólitík.

Haldreipi sukkaranna er, að hinir séu ekki skárri. Þeir, sem taki við skuldasúpunum, muni skilja enn verr eftir sig, svo að syndir fyrirrennaranna muni falla í gleymsku. Einmitt þetta hefur því miður gerzt of oft og eytt trausti fólks á stjórnmálamönnum yfirleitt.

Ekkert þjóðfélag og raunar ekkert félag getur lengi þrifizt nema innan þeirra séu pólitísk öfl, sem hafa hagsýni og ráðdeild að leiðarljósi í störfum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV