Kosningaaðgerðir

Greinar

Ríkisstjórnin hóf kosningabaráttuna á laugardaginn með yfirlýsingu um aðgerðir, sem fela í sér aukin útgjöld og minni tekjur ríkissjóðs. Í fljótu bragði virðast þær fela í sér, að fjárlagahalli næsta árs sé aukinn úr hálfum sjöunda milljarði í rúma átta milljarða.

Það er ekki ný bára í heiminum, að ríkisstjórnir reyni að milda skap kjósenda á kosningaári og draga úr líkum á hremmingum vegna ófriðar á vinnumarkaði. Slík atkvæðakaup í formi almennra aðgerða hafa leyst af hólmi aðrar og frumstæðari aðferðir til að halda völdum.

Aðgerðirnar fela í sér kjarabætur. Skattleysismörk hækka um 2.150 krónur í 59.300 krónur, lífeyrir verður mildar skattaður og hátekju-skattleysismark hækkar. Ennfremur má hugsanlega reikna fyrirhugað átak í vegamálum og öðrum atvinnumálum til nokkurra kjarabóta.

Þetta eru sáralitlar kjarabætur, en samt kúvending frá raunveruleika síðustu ára, þegar lífskjör rýrnuðu jafnt og þétt. Því er sáttahljóð í talsmönnum launþegasamtaka, sem segja þetta vera skref í rétta átt og að það liðki fyrir kjarasamningum, en leysi ekki vandann.

Ríkisstjórnin telur lítilsháttar efnahagsbata vera í augsýn á næsta ári. Vefengja má, að ástæða sé til slíkrar bjartsýni, því að óvissuþættir eru margir og þungvægir. Sveitarfélög skortir framkvæmdafé og aflabrögð verða óhjákvæmilega háð ótryggu ástandi fiskistofna.

Í stórum dráttum fjármagnar ríkisstjórnin kjarabæturnar með ávísun á framtíðina. Hálfum öðrum milljarði af kostnaðinum verður mætt með því að auka skuldir ríkisins, sem þó hafa áður hækkað hraðar en í flestum nálægum löndum, ef miðað er við greiðslugetu ríkissjóðs.

Engir nýir skattar eða skattahækkanir mæta auknum útgjöldum ríkisins vegna aðgerðanna. Fjármagnstekjuskatti er frestað til næstu ríkisstjórnar og hátekjuskatturinn er framlengdur enn einu sinni um eitt ár. Málið er bara leyst með því að auka skuldabyrði barna okkar.

Þótt þetta sé vítavert ábyrgðarleysi, er það svo sem ekki verra en hliðstætt ábyrgðarleysi fyrri ríkisstjórna. Það er því miður orðin venja ríkisstjórna til vinstri og hægri að kaupa sér frið á kosningaárum og senda afkomendum okkar reikninginn fyrir góðvildina.

Meðan kjósendur láta þetta gott heita verður áfram haldið að auka sameiginlegar skuldir þjóðarinnar, einkum á kosningaárum. Þau met, sem nú hafa verið slegin í hallarekstri ríkis og sveitarfélaga, verða aftur slegin á næstu árum. Vaxandi hluti tekna fer í að greiða skuldir.

Ef þessi vinnubrögð tíðkuðust í heimilisrekstri fjölskyldu, væri hún talin sukksöm í fjármálum. Ef þessi vinnubrögð tíðkuðust almennt hjá fjölskyldum landsins, yrði þjóðfélagið í heild gjaldþrota á fáum árum. Það bjargar okkur, að við fylgjum ekki fordæmi opinberra aðila.

Hins vegar er ekki ástæða til að óttast, að verðbólga fylgi í kjölfar hinna boðuðu aðgerða ríkisstjórnarinnar. Ef þær hafa tilætluð friðsemdaráhrif á vinnumarkaði, má raunar búast við, að verðbólga verði minni en ella hefði orðið í þeim mun harðdrægari kjarasamningum.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin muni fara í kosningar með þá rós í hnappagatinu að hafa komið verðbólgunni niður undir núllið og haldið henni þar um margra mánaða skeið. Það er miklu jákvæðari minnisvarði en hin óbeinu atkvæðakaup í boðuðum aðgerðum hennar.

Einfalt og rétt mat á sjálfum aðgerðum ríkisstjórnarinnar er, að þær eru nákvæmlega það, sem búast má við, þegar aðeins nokkrir mánuðir eru til kosninga.

Jónas Kristjánsson

DV