Panamaskjölin sýna fjölbreytt eignarhald fjölskyldu Bjarna Benediktssonar á fyrirtækjum í skattaskjólum víða um heim. STUNDIN birtir í dag yfirlit. Félög þessi voru á Brezku jómfrúareyjunum, Seychelles-eyju, Kýpur og í Lúxemborg. Við sjáum í nýju ljósi treg viðbrögð fjármálaráðherrans við fyrstu fréttum af svona gögnum. Fyrst sagði hann fráleitt að kaupa gögn af „einhverjum huldumönnum“. Síðan þráaðist hann við að svara bréfum Skattrannsóknastjóra og setti loksins skilyrði, sem ekki var hægt að nýta. Eftir þrýsting Skattrannsóknastjóra og almenningsálitsins féllst hann eftir dúk og disk á, að embættið keypti gögnin.