Fráleitt er að leyfa eigendum fiskiskipa að veðsetja aflakvóta skipanna, svo sem gert er ráð fyrir í umdeildu frumvarpi dóms- og fiskiráðherra. Auðlind hafsins er hvorki eign skipa né skipaeigenda, heldur þjóðarinnar allrar. Frá því grundvallarsjónarmiði má aldrei víkja.
Því miður hefur kvótakerfið smám saman leitt til aukinna ítaka fiskiskipaeigenda í þjóðareigninni. Þeir kaupa og selja kvóta fyrir upphæðir, sem eru mun hærri en verðmæti skipanna sjálfra kvótalausra. Þessi viðskipti eru varin með efnahagslegum rökum markaðsbúskapar.
Gera verður skýran greinarmun á viðskiptum með afmarkaðan og tímabundinn nýtingarrétt og á sjálfu eignarhaldinu. Markaðsrök má nota til þess að beina nýtingunni til þeirra, sem bezt eru til þess fallnir, en ekki til að gefa þeim sjálfa auðlindina til veðsetningar.
Ef skipaeigendur fá að veðsetja auðlindina, er formlega búið að viðurkenna, að þjóðin eigi hana ekki, heldur skipaeigendur, svonefndir sægreifar. Það má aldrei gerast, að meirihluti alþingismanna ákveði að stela auðlindinni frá þjóðinni og afhenda hana forréttindahópi.
Mikilvægt er, að með skýrum lögum verði stöðvuð útvötnun á eignarhaldi þjóðarinnar á fiskimiðunum. Skilgreina verður auðlindina sjálfa sem þjóðareign, þótt einstakir aðilar í sjávarútvegi geti átt skilgreindan nýtingarrétt, hvort sem er í kvótum eða á annan hátt.
Þjóðin verður sjálf að koma í veg fyrir, að óheillamál veðsetningar fiskistofna nái fram að ganga. Í síðasta lagi getur hún gert það í kosningum á ofanverðum vetri. Hún getur hafnað öllum frambjóðendum, sem ekki lofa skýrt að vernda eignina með lögum fyrir sægreifum.
Með skýrum lögum um eignarhald þjóðarinnar má draga úr vandamálum, sem óhjákvæmilega munu fylgja auknum samskiptum okkar við þjóðir, sem vilja fá aðgang að auðlind okkar. Frekja Spánverja á þessu sviði er öllum kunn og bitnar nú á Frökkum, Bretum og Írum.
Spánverjar geta gert okkur ýmsa skráveifu, þegar við þurfum á að halda samkomulagi við Evrópusambandið um ýmis áhugamál okkar í viðskiptum. Ef fiskimið okkar eru þjóðareign á sama hátt og málverkin í Prado eru þjóðareign Spánverja, stöndum við sterkar að vígi.
Deilur við erlend ríki og ríkjasambönd um fiskveiðiréttindi eru miklu viðráðanlegri, ef ekki er deilt um eignarrétt, heldur um nýtingarrétt gegn afgjaldi. Enda hlýtur veiðileyfagjald fyrr eða síðar að leysa núverandi kvótakerfi af hólmi í fiskveiðum í efnhagslögsögu okkar.
Sægreifar hafa tekið saman höndum um að verja kvótakerfið og berjast gegn veiðileyfagjaldi. Þeir hafa ginnt ráðherra til að leggja fram lagafrumvarp með veðsetningarheimild handa sægreifum. Þeir eru hinir raunverulegu óvinir þjóðarinnar í máli þessu.
Ef þjóðin getur ekki varið eign sína fyrir innlendum fiskiskipaeigendum, mun hún ekki geta varið hana fyrir útlendingum. Þess vegna ber okkar að stöðva leka eignarhaldsins yfir til þröngs hóps innan sjávarútvegsins og færa stöðuna í það horf, sem var fyrir kvótakerfi.
Ef haldið er fram, að skipaeigendur skuli eiga auðlindina, er alveg eins hægt að spyrja, hvers vegna ekki sjómennirnir eða fiskvinnslan, sem líka hafa beinna hagsmuna að gæta. Þessir aðilar ættu raunar að hafa sama rétt á aðgangi að kvótakerfinu og sægreifarnir hafa.
Til að treysta stöðuna inn á við og gagnvart útlöndum skulum við ítreka og kveða fastar en áður að orði um, að fiskimiðin séu þjóðareign og verði ekki veðsett.
Jónas Kristjánsson
DV