Efling hins illa

Greinar

Aðstoð íslenzkra hjálparstofnana við stríðshrjáð fólk í útlöndum hefur í ýmsum tilvikum komizt í rangar hendur, þótt talsmenn þessara stofnana fullyrði jafnan, að svo sé ekki. Skýrasta dæmið um þetta er Rúanda, þar sem morðsveitir taka öll hjálpargögn til sinna þarfa.

Flóttamannabúðunum í Saír og Tansaníu ráða stríðsglæpamenn, sem hafa stjórnað aftöku hundraða þúsunda manna. Þeir stjórna dreifingu matvæla, lyfja og annarra gagna, selja þau dýrum dómum og nota annað sjálfir. Þeir lifa í vellystingum, en fólkið deyr drottni sínum.

Fólkið í flóttamannabúðunum er raunar í gíslingu morðsveita. Það fær ekki að snúa heim til Rúanda, af því að stríðsglæpamennirnir koma í veg fyrir það. Þeir halda óbreyttu neyðarástandi í búðunum, svo að þeir sjálfir missi ekki af hagnaðinum af neyðaraðstoðinni.

Um leið nota morðsveitirnar íslenzku aðstoðina til að undirbúa innrás í Rúanda, svo að þeir geti haldið áfram fjöldamorðum. Á sama tíma fer ekki króna af íslenzkri aðstoð til hjálpar fólki í Rúanda. Þannig stuðla íslenzkar hjálparstofnanir að nýrri valdatöku stríðsglæpamanna.

Þessar fullyrðingar um afdrif vestrænnar aðstoðar eru byggðar á ítarlegum vettvangsrannsóknum fjölmiðla og hafa birzt um allan hinn vestræna heim. Þegar talsmenn íslenzkra hjálparstofnana fullyrða, að allt annað gildi um íslenzka aðstoð, er alls engin ástæða til að trúa þeim.

Minnisstætt er, þegar íslenzki Rauði krossinn hafði afskipti af þjóðahreinsunum á vegum Serba í arftakaríkjum Júgóslavíu. Aðstoðin frá Íslandi fór til Serba, en ekki til fórnardýra þeirra. Í því máli tók íslenzka hjálparstofnunin í reynd skýra afstöðu gegn stríðshrjáðu fólki.

Morðsveitir stríðsglæpamanna lærðu af stríðinu í Sómalíu. Aidid stríðsherra í Mogadishu gerði beinlínis út á vestrænar hjálparstofnanir. Hann framleiddi hörmungar og tók síðan öll hjálpargögn, sem bárust. Í skjóli hjálparstofnana varð hann valdamesti maður landsins.

Rauði krossinn og aðrar hjálparstofnanir geta ekki lengur neitað að horfast í augu við misnotkunina. Hörmungar af manna völdum yrðu minni, ef hjálparstofnanir gættu sín betur og reyndu að dreifa aðstoð sinni fram hjá þeim, sem iðnastir eru við að framleiða hörmungar.

Hjálparstofnunum ber skylda til að reyna að koma í veg fyrir, að aðstoðin magni hörmungar fólks. Ef þær halda áfram að stinga höfðinu í sandinn, er óhjákvæmilegt, að fólk hættir að styðja þær. Það þýðir ekki endalaust að segja fólki ósatt um afdrif aðstoðarinnar.

Hjálparstofnanir verða hvort sem er að velja og hafna. Þær geta ekki verið alls staðar. Í arftakaríkjum Júgóslavíu áttu þær að beina aðstoðinni að Bosníumönnum fremur en Serbum. Í Sómalíu bar þeim að fara í stóran hring framhjá Aidid stríðsherra. Það sama gildir um Rúanda.

Með því að senda aðstoðina til Rúanda hefðu hjálparstofnanir grafið undan getu morðsveitanna til að halda uppi hryllingsstjórn á flóttamannabúðunum í Saír og Tansaníu og stuðlað um leið að heimflutningi fólks, sem nú er haldið í gíslingu í þessum flóttamannabúðum.

Það er ekki nóg að hafa hlýtt hjarta og góðan hug, ef niðurstaða þess er efling hins illa í heiminum. Hjálparstofnanir verða að læra að umgangast heiminn eins og hann er. Rauði krossinn verður dæmdur af afleiðingum gerða sinna, en ekki af góðvilja ráðamanna hans.

Umfram allt verða talsmenn íslenzkra hjálparstofnana að hætta að ljúga að fólki um afdrif íslenzkrar aðstoðar. Ósannindi eru ekki ókeypis, þau hefna sín um síðir.

Jónas Kristjánsson

DV