Allir gegn almenningi

Greinar

Lengi verður minnisstætt, að allur þingheimur tók samhljóða afstöðu gegn íslenzkum almenningi, þegar Alþingi samþykkti eftir jól, að forræði innflutningstolls á matvöru skuli vera hjá landbúnaðarráðherra, en hvorki hjá fjármálaráðherra né viðskiptaráðherra.

Svo lengi sem elztu menn muna, hafa landbúnaðarráðherrar verið valdir frá sjónarmiðum þrengstu sérhagsmuna í landbúnaði. Svo gildir um framsóknarmanninn, sem nú er landbúnaðarráðherra. Á hans valdaskeiði verða tollaheimildir á matvöru notaðar til fulls.

Samkvæmt samhljóða ályktun Alþingis má ráðherrann setja mörg hundruð prósenta toll á matvörur, sem eru í samkeppni við innlenda matvöru. Þar með er gulltryggt, að árangurinn af stofnaðild Íslands að nýju Alþjóðaviðskiptastofnuninni skilar sér ekki til neytenda.

Tollar eru í verkahring fjármálaráðherra og utanríkis-viðskipti í verkahring viðskiptaráðherra. Af þröngum sérhagsmunaástæðum hefur nú verið gerð mikilvæg undantekning. Alþingi var sammála um, að hvorugum ráðherranum væri treystandi fyrir matartollinum.

Samningurinn um nýju Alþjóðaviðskiptastofnunina felur í sér, að flytja má inn landbúnaðarafurðir, þótt þær séu framleiddar í landinu. Til að vernda innlendan landbúnað er heimilt að láta ofurháan toll koma í upphafi í stað bannsins, í flestum tilvikum 600­800% toll.

Vitað er af skoðanakönnunum, að meirihluti þjóðarinnar vill, að íslenzkur landbúnaður sé verndaður fyrir umhverfinu, jafnvel þótt fólk viti vel, að þessi verndun sérhagsmuna er á kostnað lífskjara almennings. Niðurstaða Alþingis þarf því ekki að koma neinum á óvart.

Hitt er merkilegra, að hinn fjölmenni minnihluti, sem tekur hagsmuni almennings fram yfir sérhagsmuni landbúnaðar, skuli ekki hafa einn einasta fulltrúa á Alþingi. Eðlilegt hefði verið, að atkvæði féllu þar 60-40% landbúnaðinum í vil, en 100-0% er óþægilega afdráttarlaust.

Öll stjórnmálaöfl á Alþingi eru sammála í þessu eina máli. Það gildir um gamla fjórflokkinn, að leifunum af Alþýðuflokknum meðtöldum. Það gildir líka um yngri flokkana, Kvennalistann og Þjóðvaka. Hver einasti fulltrúi allra þessara afla tekur landbúnað fram yfir annað.

Flestir kjarasamningar í landinu eru lausir í upphafi þessa nýja árs. Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort verkalýðsrekendur muni nefna matartollinn í væntanlegum kjaraviðræðum, því að augljóst er, að ekkert getur bætt kjör almennings meira en tollalækkun á mat.

Niðurstaða samninganna verður lítil og léleg. Láglaunafólk mun áfram hafa sultarlífskjör, af því að verklýðsrekendur munu áfram taka þátt í almennri forvígismannasátt um, að umbjóðendur þeirra búi við langtum hærra matarverð en gildir í flestum vestrænum ríkjum.

Sá fjölmenni minnihluti, sem telur eðlilegt, að lífskjör séu bætt í landinu með því að koma matarverði niður í það, sem tíðkast í Bandaríkjunum, ætti að fylgjast vel með frammistöðu verkalýðsrekenda í kjaraviðræðunum, sem senn fara að hefjast, og draga af því lærdóm.

Þessi sami minnihluti ætti líka að fylgjast vel með, hvernig stjórnmálaflokkarnir sex munu fjalla um matartollana á næstu þremur mánuðum, meðan þeir sækjast eftir nýju umboði fólks til nýs Alþingis. Enginn þeirra mun geta útskýrt andstöðu sína gegn almenningi.

Athyglisvert er, að hagsmunir almennings og skoðun fjölmenns minnihluta eiga alls engan hljómgrunn í stjórnmálaflokkum og launþegafélögum landsins.

Jónas Kristjánsson

DV