Enginn vildi dalinn

Greinar

Fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri talaði fyrir munn margra Íslendinga, þegar hann lýsti áhyggjum sínum af auknu frelsi erlends fjármagns á Íslandi. Hann sá fyrir sér, að útlendingar mundu kaupa fagra dali í heilu lagi og hafa þá fyrir sig.

Síðan íslenzk stjórnvöld neyddust til að opna fyrir erlent fjármagn vegna samninga um gagnkvæm réttindi á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, hafa menn beðið eftir að sjá martröð stjórnmálamannsins rætast. Mánuðirnir hafa liðið og orðið að meira en heilu ári.

Við upphaf frelsis Evrópska efnahagssvæðisins var engin biðröð útlendinga hjá fasteignasölum, sem hafa jarðir til sölu. Enginn hefur síðan komið til að kaupa jarðir. Erlendir menn hafa ekki einu sinni spurt um tæknileg atriði við jarðakaup. Áhugaleysið er algert.

Enn þann dag í dag er land eins arðlaust og verðlaust og það hefur verið í áratugi. Einu kaupendurnir hafa verið innlendir hrossaræktendur úr þéttbýli. Sá markaður var alltaf takmarkaður og hefur mettazt. Jarðir hafa ekki selzt mánuðum saman og munu ekki seljast.

Áhyggjur stjórnmálamannsins reyndust vera ástæðulitlar, þegar á hólminn var komið. Hins vegar hefur komið í ljós, að ástæða er til að hafa þveröfugar áhyggjur, að erlendir fjármagnseigendur vilji ekki fjárfesta í landi og þjóð, trúi alls ekki á íslenzka framtíðarmöguleika.

Flestar nágrannaþjóðir okkar byggja hagvöxt sinn að nokkru leyti á innfluttu áhættufjármagni. Það dregur úr lánsfjárþörfinni. Höfuðstóll áhættufjármagnsins verður eftir í landinu, en lánsfé þarf að skila, ekki bara arðinum af því, heldur líka sjálfum höfuðstóli þess.

Það er dýrt fyrir okkur að treysta nærri eingöngu á erlent lánsfé, sem bindur börnum okkar geigvænlega skuldabyrði. Miklu betra væri að búa til skilyrði þess, að fjármagn geti streymt inn í landið til þess að vera hér um kyrrt. Þetta hefur öðrum tekizt, en okkur alls ekki.

Við höfum reynt að selja orku með afar litlum árangri. Við eigum ónotað orkuver norður í landi, en enginn vill kaupa orkuna. Það hefur verið umræðuefni áratugum saman að laða stóriðju að Íslandi, en árangurinn hefur verið lítill og raunar farið minnkandi með árunum.

Ekki bætir úr skák, að Íslendingum er ekki treyst. Innlend stjórnmálaöfl hafa reynt að fiska sér fylgi með því að mála skratta erlends einkafjármagns á vegginn. Erlendir aðilar reikna með, að pólitíska afturhaldið á Íslandi reyni að spilla fyrir erlendri fjárfestingu.

Þegar erlent olíufélag vill fá að hasla sér völl á Íslandi og efla samkeppni í olíuverzlun, má lesa og heyra fýluna leka af þingmönnum úr Sjálfstæðisflokknum, forseta Alþýðusambandsins, þjóðrembingum í Alþýðubandalaginu og framsóknarmönnum allra stjórnmálaflokka.

Reykjavíkurborg hefur hins vegar tekið skynsamlega á málinu. Hún hefur útvegað hin ytri skilyrði þess, að erlenda olíufélagið geti hafið samkeppni við þríhöfða þurs olíuverzlunar í landinu. Þar með streyma fé og atvinna í borgina, bæði til uppbyggingar og rekstrar.

Reykjavíkurborg er líka að kanna, hvort hægt sé að losna við hallærisfyrirtækið Sorpu í hendur Austurríkismanna, sem kunna til verka á sviði sorpeyðingar. Vonandi gengur það dæmi líka upp. Við þurfum á mörgum sviðum ekki bara peninga, heldur einnig verkþekkingu.

Ef farið verður að búa í hag fyrir slíkar tilraunir, kann óorðið af fara af okkur og erlendir fjárfestar kunna að fá trú á, að hægt sé að græða í félagi við Íslendinga.

Jónas Kristjánsson

DV