Vinir Hafnarfjarðar

Greinar

Fyrirhugaður meirihluti á vegum krata í Hafnarfirði er of seint á ferð til að koma í veg fyrir skýrslur og aðrar upplýsingar um fyrri spillingu þessara aðila. Það er hins vegar kjörinn vettvangur fyrir nýja spillingu í skjóli nýs bæjarstjórnar-meirihluta á vegum Alþýðuflokksins.

Hafnarfjörður tapaði 70 milljónum króna á viðskiptum bæjarins við Hagvirki á fyrri valdatíma jafnaðarmanna. Ógætileg meðferð fjármuna á því sviði minnir á svipaða meðferð fjármuna vegna listahátíðar í Hafnarfirði. Sukkið hefur verið og er enn einkenni krata í Hafnarfirði.

Skel hæfir kjafti, ef bæjarstjóri nýja meirihlutans verður höfuðsmaðurinn sjálfur, sem hrökklaðist úr ráðherrastóli í nóvember fyrir að hafa afrekað meira í fyrirgreiðslum og annarri þjónustu við vini og valda aðila á tíu mánuðum en kræfustu ráðherrar afreka á tíu árum.

Í stjórnarmyndunarviðræðum hefur verið minnzt á þann kost, að ráðherrann fyrrverandi verði bæjarstjóri á nýjan leik. Hagvirkisarmur bandalagsins hefur ekki viljað samþykkja það. Óneitanlega yrði meiri stíll yfir spillingunni, ef afturhvarfið yrði þannig fullkomnað.

Athyglisvert er, hversu hlýtt jafnaðarmönnum í Hafnarfirði er til spillingar í opinberum rekstri. Það kom greinilega fram í frægðarmálum fyrrverandi bæjarstjóra og ráðherra og kemur nú ekki síður skýrt í ljós í smíði bláþráðar-bandalags um endurheimta stjórn bæjarins.

Alþýðuflokksmenn í Hafnarfirði eru sagðir munu ætla að sjá um, að þeirra maður verði efstur í prófkjöri flokksins í Reykjaneskjördæmi og haldi þannig stöðu sinni í flokknum, þar sem hann er varaformaður. Verður hann þá fljótt eftirmaður hins fylgislausa flokksformanns.

Íslendingar kalla ekki allt ömmu sína í dálæti á spillingu og öfund í garð þeirra, sem ná langt á því sviði. Samt hefur krötum í Hafnarfirði tekizt að ganga fram af venjulegu fólki. Skoðanakannanir sýna, að almenningi blöskrar framganga þeirra og höfuðsmanns þeirra.

Undarlegt ástand í Hafnarfirði stafar ekki af, að þar búi verra fólk en annars staðar í landinu. Tvennt hefur myndað jarðveg spillingar. Annars vegar er langvinn barátta íhalds og krata, sem blindar málsaðila svo, að þeir sjá allt í andstæðunum: Okkar menn og óvinirnir.

Þegar mikil spenna hefur lengi verið milli tveggja póla, er stundum hætt við, að flokkadrættir ryðji til hliðar almennu mati og viðhorfum, þar á meðal siðgæðisviðhorfum. Þá er ekki spurt um efnisatriði, heldur hvort viðkomandi sé með ,,okkur” eða á móti ,,okkur”.

Hin forsendan er árlegi fjársjóðurinn, sem Hafnarfjörður fær í gjöldum frá álverinu. Miklar tekjur umfram önnur sveitarfélög hafa gefið hafnfirzkum bæjaryfirvöldum tækifæri til að fara með peninga eins og skít. Víðar en í Færeyjum þarf sterk bein til að þola góða daga.

Samkvæmt Pétursreglu fyllir opinber rekstur alltaf það svigrúm, sem fæst af auknum tekjum. Eyðsluglaðir kratar í Hafnarfirði fylgdu ekki bara þessari reglu um meðferð opinberra fjármuna, heldur tókst þeim líka að gera bæinn að einum hinum skuldugasta í landinu.

Þetta voru sæludagar í Hafnarfirði. Þáverandi bæjarstjóri var eins og kóngur í ævintýraríki og grýtti peningum í allar áttir til vina Hafnarfjarðar, hvort sem þeir voru á vegum listahátíða eða þóknanlegra verktaka. Hirðina dreymir enn um að endurheimta dýrðardagana.

Framhaldssögunni um vini Hafnarfjarðar er ekki lokið. Nýr kapítuli er að hefjast. Hann verður minnisstæður og vafalaust tilefni nýrra Hafnarfjarðarbrandara.

Jónas Kristjánsson

DV