Ríkisstjórn á leiðarenda

Greinar

Ófriðlegt er í ríkisstjórninni. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra deila opinberlega um nýjasta og stærsta Hafnarfjarðarbrandarann. Á sama tíma deilir sjávarútvegsráðherra við forsætis- og utanríkisráðherra um komu kanadíska sjávarútvegsráðherrans til landsins.

Ólíkt höfðust þessir sömu flokkar að á viðreisnaráratugnum. Þá féll ekki styggðaryrði milli ráðherra, hvorki innan flokka né milli flokka. Ráðherrar létu ekki einu sinni freistast til slíks rétt fyrir kosningar, af því að þeir stefndu að sama stjórnarsamstarfi eftir kosningar.

Nú er vitað, að stjórnarmynztrið hefur runnið sitt skeið á enda. Alþýðuflokkurinn hefur ekki burði til að mynda tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Sumir ráðherrar krata hafa misnotað stjórnaraðstöðuna meira en þjóðin sættir sig við.

Ágreiningurinn er ekki allur milli flokka. Spennan milli núverandi og fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hjaðnað hið minnsta. Hún skýtur sífellt upp kollinum. Þeir virðast ekki vera menn til að láta tímann lækna persónulega óvild frá fyrri tíma.

Þetta er bagalegt fyrir flokk þeirra, þar sem aðrir forustumenn flokksins komast ekki á blað í vinsældum og trausti í skoðanakönnunum. Aðrir ráðherrar flokksins eru núll og nix í huga almennings, nema hugsanlega landbúnaðarráðherra, helzti fulltrúi afturhaldsins.

Sú verkaskipting hefur raunar orðið með stjórnarflokkunum, að Alþýðuflokkurinn hefur færzt til hægri og er flokkur markaðsbúskapar og Evrópuhyggju, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið til vinstri og komið sér fyrir nokkurn veginn á miðlínu Framsóknarflokksins.

Þessi tilfærsla Sjálfstæðisflokksins er eðlilegur undanfari samstarfs hans við Framsóknarflokkinn um nýja ríkisstjórn eftir kosningar á hreinum og ómenguðum afturhaldsgrundvelli Framsóknarflokksins. Það er eina tveggja flokka stjórnarmynztrið, sem er í augsýn.

Auk landbúnaðarráðherra hefur sjávarútvegsráðherra lengi verið á línu Framsóknarflokksins, enda kosinn á þing fyrir landbúnaðarkjördæmi. Nýrra er, að forsætisráðherra hefur notað hvert tækifæri til að sveigja stjórnarstefnuna að miðlínu Framsóknarflokksins.

Þetta hefur komið greinilega fram í tilfærslu valds til landbúnaðarráðherra, sem hefur fengið það kærkomna hlutverk í ríkisstjórninni að tolla innfluttan mat upp úr öllu valdi til að tryggja, að neytendur hafi ekki hag af stofnaðild Íslands að Alþjóða viðskiptastofnuninni nýju.

Framsóknarflokkurinn er á grænni grund í þjóðmálunum. Annaðhvort myndar hann framsóknarstjórn með Sjálfstæðisflokki eða framsóknarstjórn með Alþýðubandalagi og Þjóðvaka. Engu máli skiptir, hvor kosturinn verður fyrir valinu, því að þeir eru alveg eins.

Ríkisstjórnaraðild Þjóðvaka breytir engu í þessu mynztri. Hennar heilagleiki er eðalkrati í ættir fram og hæfir vel samstarfi við Framsókn, þar sem hún fær sérsvið með líkum hætti og áður. Henni fylgja í stjórn aðrir eðalkratar með sömu forræðishyggju í framsóknarstíl.

Mesti örlagavaldur þessa ferlis er utanríkisráðherra, sem er eini frambærilegi stjórnmálamaður landsins á alþjóðlegum vettvangi, en er um leið gersamlega ófær um að vera flokksformaður vegna stanzlausrar áráttu til pólitískra slagsmála og hrokafullrar framgöngu.

Með því að rústa Alþýðuflokkinn og koma óorði á markaðshyggju og Evrópuhyggju hefur utanríkisráðherra gulltryggt fjögur ár Framsóknar-afturhalds.

Jónas Kristjánsson

DV