Kolkrabbinn kortlagður

Greinar

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu skýtur tölulegum grunni undir umræðuna um kolkrabbann. Hún sýnir samtvinnað fjármálaveldi umhverfis ráðamenn Eimskipafélagsins, Sjóvá-Almennra, Skeljungs og Flugleiða.

Höfuðfyrirtæki kolkrabbans eiga hlutafé hvert í öðru og ráðamenn hvers þeirra sitja í stjórnum hinna. Í kringum þau eru önnur fyrirtæki, sem eru að hluta í eigu höfuðfyrirtækjanna og sækja þangað stjórnarmenn. Þetta er allt kortlagt í skýrslu Samkeppnisstofnunar.

Hitt stóra aflið er ekki nema svipur af fornri frægð. Það er smokkfiskurinn, sem felur í sér leifar veldis Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Þungamiðja hans er í Olíufélaginu og Vátryggingafélaginu og aðrar helztu birtingarmyndir í Samskipum og Íslenzkum sjávarafurðum.

Minna fer fyrir öðrum valdamiðjum fjármálaheimsins. Landsbanki Íslands hefur fært út kvíarnar með yfirtöku ýmissa fyrirtækja, sem hafa farið halloka í lífsbaráttunni. Og Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur verið iðinn við að kaupa smáhluti í öflugum fyrirtækjum.

Fyrrum var jafnvægi milli kolkrabbans og smokkfisksins. Þá réðu oft ríkjum helmingaskiptastjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þær gættu hagsmuna stórfyrirtækjanna og notuðu miðstýringu og skömmtunarvald ríkisins óspart í þágu þeirra sameiginlega.

Í þá daga skipti til dæmis meira máli að fá að vita um gengislækkun með dags fyrirvara heldur en að hafa góð tök á sjálfum rekstrinum. Með hægfara opnun þjóðfélagsins minnkuðu forréttindin. Og verðtrygging fjárskuldbindinga varð til þess, að Sambandið féll í valinn.

Kolkrabbinn lagaði sig betur að breyttum aðstæðum og sat að lokum einn eftir með yfirburðastöðu í peningaheiminum. Þegar forréttindin minnkuðu, notaði hann heljartök sín á markaðinum til að mynda einokun eða fáokun eftir aðstæðum og hindra viðgang nýrra aðila.

Í samgöngum hafa Eimskip og Flugleiðir nánast einokun, hvort á sínu sviði, og Flugleiðir þar á ofan í ferðaþjónustu. Olíufélögin þrjú mynda fáokun á sínu sviði og sömuleiðis tvö tryggingafélögin stóru. Þessi fáokun á sér einnig hliðstæðu í bankakerfinu og í útflutningi á freðfiski.

Með ýmsum hætti, einkum með ítökum í stjórnmálum og bönkum, hefur kolkrabbanum, oftast einum sér og stundum í fáokun með leifum smokkfisksins, tekizt að bægja frá innlendri samkeppni, sem hefur látið á sér bæra af vanefnum, einkum í millilandasamgöngum.

Með aukinni þátttöku landsins í alþjóðlegum viðskiptasamkundum hefur ný hætta steðjað að yfirburðastöðu kolkrabbans í þjóðlífinu. Það er samkeppni af hálfu erlendra aðila, sem hafa margfalt meira bolmagn en hinir innlendu aðilar, sem hafa att kappi við kolkrabbann.

Þannig geta Flugleiðir ekki lengur einokað vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli og komið þannig óbeint í veg fyrir erlenda samkeppni. Um síðir verða stjórnvöld líka neydd til að afnema einokun félagsins á farþegaflugi. Erlend olíu- og tryggingafélög eru einnig komin á stjá.

Einstök bæjarfélög, með Reykjavík í broddi fylkingar, geta flýtt fyrir hruni einokunar og fáokunar með því að veita nýjum aðilum hafnaraðstöðu og aðrar lóðir til umsvifa. Aðstaða kolkrabbans til að hindra þetta hefur farið versnandi að undanförnu og mun versna enn.

Við sleppum síðan undan oki kolkrabbans, þegar erlendir bankar stofna hér útibú með eðlilegum viðskiptaháttum. Það verður upphaf að endalokum kolkrabbans.

Jónas Kristjánsson

DV