Verðstýrð heilsa

Greinar

Heilbrigðisráðherra á kost á betri leiðum til að gera heilbrigðiskerfið ódýrara en að taka upp tilvísanakerfi að nýju. Hægt er að beita mildari stýritækjum en því að leggja eitt kerfi niður í heild sinni og taka annað eldra upp í staðinn, en ná samt fram ekki minni sparnaði.

Raunar hefur ekki verið sýnt fram á, að sparnaður sé fyrir þjóðfélagið af tilvísanakerfinu, sem á að hefja göngu sína eftir rúma viku. Sparnaður ríkisins sjálfs er sagður um 100 milljónir, en er að mestu á kostnað notenda, svo að sparnaður þjóðfélagsins er nær enginn.

Sparnaður er torsóttur, af því að þjónusta sérfræðinga utan sjúkrahúsa er tiltölulega ódýr og mun ódýrari en þjónusta sérfræðinga á sjúkrahúsum. Hin nýja reglugerð mun meðal annars fela í sér flutning frá ódýrari þjónustunni yfir til hinnar dýrari á sjúkrahúsum landsins.

Þetta vegur á móti þeim sparnaði, sem fæst af því, að heimilislæknar og heilsugæzlustöðvar taki við hluta þjónustunnar, sem nú fæst beint hjá sérfræðingum. Hafa verður í huga, að þjónusta sérfræðinga utan sjúkrahúsa er ekki miklu dýrari en heilsugæzlulækna og -stöðva.

Einnig má taka með í reikninginn, að ríki og sveitarfélög hafa mikinn kostnað af byggingu og rekstri heilsugæzlustöðva, sem ekki er af húsnæði og húsbúnaði sérfræðinga utan sjúkrahúsa. Hinir síðarnefndu verða að sjá um sig sjálfir og borga það af eigin tekjum.

Samt sem áður getur heilbrigðisráðuneytið haft gildar ástæður til að ætla, að hagkvæmt sé að reyna að stýra viðskiptum sjúklinga frá sérfræðingum til heilsugæzlustöðva. Þar með væri stefnt að því, að sem flest mál yrðu afgreidd á frumstigi og án aðildar sérfræðinga.

Þetta má gera með því að breyta kostnaðarhlutfalli ríkisins, þannig að gert sé ódýrara fyrir fólk að fara til heilsugæzlustöðva en til sérfræðinga utan sjúkrahúsa, en ganga ekki svo langt að neita að taka nokkurn þátt í kostnaðinum, þegar fólk fer beint til sérfræðinga.

Um leið og fólk er hvatt til að fara heldur til heimilislækna en til sérfræðinga utan sjúkrahúsa væri einnig æskilegt að hvetja fólk til að nota fremur ódýra þjónustu sérfræðinga utan sjúkrahúsa en dýra þjónustu sjúkrahúsa, ef mál eru ekki svo flókin, að þau kosti legu.

Með mildri stýringu af þessu tagi getur heilbrigðisráðuneytið sparað ríkinu 100 milljónir króna og náð þannig þeim árangri, sem stefnt er að með nýju reglugerðinni. Sá árangur mundi líka nást í raun, en ekki vera ímyndaður eins og árangur tilvísanakerfisins.

Ef hægt er að komast að niðurstöðu, sem friður ríkir um, losnar ríkið við þann kostnaðarsama vanda, að þjónusta sérfræðinga utan sjúkrahúsa flyzt inn á sjúkrahúsin. Sá vandi mun án efa leiða til þeirra aukaverkana, að ríkið fari að rukka meira fyrir þjónustu sjúkrahúsa.

Heilbrigðisráðuneytið gæti lært mikið af stýritækjum fjármálaheimsins. Þar eru smávægilegar tilhliðranir á vöxtum notaðar til að halda jafnvægi á markaði. Á sama hátt væri eðlilegt að nota verðbreytingar í stað kúvendinga til mildrar stýringar á heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisráðuneytið er ekki þekkt að mikilli þekkingu á sviðum hagstjórnar og markaðsmála. Yfirstjórn þess hefur þvert á móti töluvert verið í fréttum vegna óstjórnar og minnisleysis. Það magnar efasemdir um, að reglugerðir, sem þar verða til, séu fyllilega nothæfar.

Enn er tími til að víkja frá einstefnu reglugerðar ráðuneytisins og taka upp markaðsvæna verðstýringu, sem heldur sæmilegum vinnufriði í heilbrigðisþjónustunni.

Jónas Kristjánsson

DV