Mín stofnun

Greinar

“Þú stjórnar Arnóri. Ég stjórna þér. Þessi ráðherra er ekki hræddur við að berjast. Ég minni þig á framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs, sem nú er fyrrverandi framkvæmdastjóri. Gleðileg jól.” Þetta hefur fyrrverandi veiðistjóri eftir núverandi umhverfisráðherra.

Hinn skapstyggi umhverfisráðherra hefur nýlega verið í fjölmiðlum og látið orð falla á þann veg, að hann virðist sem fyrr halda, að hann eigi ráðuneyti sitt og stofnanir þær, sem undir það falla. Þetta er “mín stofnun”, sagði hann við það tækifæri um embætti veiðistjóra.

Tilefni málsins er, að umhverfisráðherra hefur látið eftir sér að hringja í embættismenn og opinbera starfsmenn með vafasömu orðavali, jafnvel út af málum, sem varða ekki verksvið viðkomandi stofnunar. Virðist ráðherrann ekki kunna sér neitt hóf á þessu sviði.

Starfsmaður embættis veiðistjóra hafði tjáð sig opinberlega um rjúpnaveiði sem félagi í Skotveiðifélagi Íslands, en ekki sem ríkisstarfsmaður, enda heyrir rjúpnaveiði ekki undir embætti veiðistjóra. Þessi tjáning hans var aðeins hluti af borgaralegum réttindum hans.

Samt hringir umhverfisráðherra í hann og síðan í yfirmann hans, þáverandi veiðistjóra, sem reyndi að útskýra fyrir ráðherranum, að mál þetta varðaði ekki embætti veiðistjóra, heldur væri einkamál starfsmannsins. Viðbrögð ráðherrans voru síður en svo vinsamleg.

Umhverfisráðherra “á” ekki embætti veiðistjóra, þótt það heyri undir ráðuneytið. Hann stjórnar því ekki, að veiðistjóri ráði persónulegum skoðunum starfsmanna embættisins á málum, sem ekki eru á verksviði embættisins. Ráðherrann hefur ofmetnazt af upphefð sinni.

Tilvísun ráðherrans um, að annar embættismaður sé orðinn fyrrverandi embættismaður, er ekki annað en bein hótun um, að ráðherrann muni reyna að gera veiðistjóra að fyrrverandi veiðistjóra. Það hefur svo komið á daginn, að hann er orðinn fyrrverandi veiðistjóri.

Ekki getur það verið umhverfisráðherra til afsökunar, að það sé svo mikið álag á hann að leika trúð á kjötkveðjuhátíðum karlaklúbba, að hann verði að fá útrás í vanstilltum símtölum við opinbera starfsmenn. Ráðherra á fremur að biðja viðkomandi starfsmenn afsökunar.

Það er hins vegar vandamál Alþýðuflokksins að þurfa að bjóða kjósendum að velja umhverfisráðherrann í annað sinn á þing, alveg eins og það er vandamál flokksins að þurfa að bjóða kjósendum að velja fyrrverandi bæjarstjóra og félagsráðherra í annað sinn á þing.

Síðan er vandamál kjósenda að hyggjast samkvæmt skoðanakönnunum hleypa sex mönnum Alþýðuflokksins á þing, þar á meðal þessum tveimur sérfræðingum í misnotkun ráðherravalds, að ógleymdum utanríkisráðherra, sem stundar einkennilegar mannaráðningar.

Það er jafnvel ástæða til að hafa samúð með fyrrverandi bæjarstjóra og félagsráðherra, því að hans glöp fólust einkum í að beina velvild og greiðasemi að einstaklingum, sem fengu á þann hátt fyrirgreiðslu, er aðrir fengu ekki. Hann er of stórtækur fyrirgreiðslumaður.

Valdshyggjumennirnir eru verri. Kjósendur og stjórnmálaflokkar ættu að forðast stjórnmálamenn, sem nota valdastöður til að sparka í fólk, sem þeir telja standa sér skör lægra, og reyna að kúga það með yfirgangi, orðbragði og dulbúnum hótunum, þótt marklausar séu.

Illa tamin valdshyggja er eiginleiki, sem allra eiginleika sízt á erindi í stjórnmál í lýðræðisríki. Valdshyggjan er afturhvarf til lénsveldis hinna myrku miðalda.

Jónas Kristjánsson

DV