Samgönguæð nútímans

Greinar

Ríkið á alltaf og alls staðar erfitt með að nota peningaveldi sitt til að stuðla að nýsköpun í atvinnuvegum. Það er alþjóðleg reynsla, sem hefur fengið óvenjulega skýra staðfestingu hér á landi í miklu tapi opinberra sjóða af stuðningi við nýsköpun í loðdýrarækt og fiskeldi.

Lánasjóðir og gjafasjóðir ríkisins eiga líka erfitt með að finna einstök fyrirtæki eða verkefni, sem geti komizt á flug með hjálp Stóra bróður. Það er ekki til nein aðferð við að finna, hvaða hugvitsmenn og snillingar séu líklegastir til að ná árangri og hverjir blási sápukúlur.

Ríkið getur samt gert mikið gagn og búið í haginn fyrir atvinnugreinar nútímans. Það gerist með því að leggja í kostnað við að undirbúa jarðveginn. Beinasta og augljósasta dæmið um slíkt er samgöngukerfi á landi, í sjó og í lofti og ekki sízt í símaþráðum af ýmsu tagi.

Ríkið byggir og rekur vegi án þess að rukka sérstaklega fyrir notkun neins hluta þeirra. Með sveitarfélögum, sem líka eru opinberir aðilar, byggir það hafnir. Sveitarfélög reka þær með lágu notkunargjaldi, sem ekki tekur stofnkostnað með í dæmið, aðeins rekstrarkostnað.

Framtak opinberra aðila á þessum sviðum er forsenda hins hefðbundna atvinnulífs hér á landi. Ef ríkið gengi ekki fram fyrir skjöldu í vegagerð og hafnargerð, væri alls ekki hægt að stunda hefðbundna atvinnuvegi hér á landi, þar á meðal ekki fiskveiðar og fiskvinnslu.

Þessa dagana er orðið fínt að tala um, að hér á landi þurfi að byggja upp atvinnuvegi nútímans, greinar, sem byggja á menntun og hugviti. Talað er um gerð hugbúnaðar, fjarþjónustu, viðskipti á internetinu og ýmislegt fleira, sem skapi þjóðinni hálaunastörf við tölvur.

Ríkið getur stuðlað að þessu og fetað á undan þróuninni með því að byggja gott samgöngukerfi fyrir atvinnugreinar nútímans. Um þessar mundir er aðeins notuð alls kostar ófullnægjandi, 128 kílóbita lína til gagnaflutnings og annarra tölvusamskipta til og frá landinu.

Þetta þýðir, að þeir, sem ætla að ná árangri í utanríkisviðskiptum á þessum sviðum, verða að flytja rekstur sinn úr landi. Það er þeim auðvelt, af því að rekstur þeirra er ekki staðbundinn, heldur auðflytjanlegur. Hann notar engar vélar eða tæki í hefðbundnum skilningi.

Ef ríkið ætlar að halda þessu hálaunafólki í landinu, þarf það að lýsa formlega yfir, að það ábyrgist mun meiri bandvídd í gagnaflutningsgetu til og frá landinu en notuð er á hverjum tíma og muni til að byrja með auka bandvíddina úr 128 kílóbitum í 4.000 kílóbit.

Póstur og sími hefur raunar tífalda þá bandbreidd, 40.000 kílóbit, til ráðstöfunar. Það er rúmlega þrjúhundruðföld núverandi bandvídd. Kapallinn hefur verið lagður og bíður eftir viðskiptum. Það þýðir hins vegar ekki að verðleggja notkunina eins og einhvern fágætan hlut.

Ef ríkið og einkaréttarstofnun þess geta ekki jafnað aðstöðumun innlendra og erlendra fyrirtækja á sviði hugbúnaðargerðar, fjarþjónustu, viðskipta á internetinu og öðrum tölvusamskiptum, stoðar lítt að monta sig af 40.000 bita bandvídd til gagnaflutninga yfir hafið.

Svo kann að fara, að ríki og sími þurfi sameiginlega að afskrifa hluta af kapalverðinu til að gera þetta kleift og að ríkið þurfi jafnframt að bjóða út rekstur gagnaflutningsins eftir kaplinum til þess að ná fram lægra verði en einkaréttarstofnunin telur sig geta ráðið við.

Góðu fréttirnar eru, að ríkið getur nánast með tveimur pennastrikum lagt sitt af mörkum til að tryggja möguleika Íslendinga í hinum nýju atvinnugreinum tölvunnar.

Jónas Kristjánsson

DV