Flest bendir til, að torsótt verði að fá Evrópusambandið til að fallast á, að Ísland haldi tollakjörum Fríverzlunarsamtakanna í Svíþjóð og Finnlandi eftir að löndin fóru úr Fríverzlunarsamtökunum í Evrópusambandið. Það þýðir, að saltsíldarvinnsla er vonlítil hér á landi.
Þetta er hluti af margs konar kostnaði okkar af að standa utan Evrópusambandsins. Í þessu máli sem ýmsum öðrum er greinilegt, að sambandið stendur oft afar fast á sínu í samskiptum við utanaðkomandi aðila og líkist fremur tollmúrasambandi en tollfrelsissambandi.
Hins vegar komast aðildarríki Evrópusambandsins upp með margvíslega sérhagsmunagæzlu innan þess. Sum ríki taka mikilvæg mál herskildi til að fá sérmálum framgengt. Þannig haga Spánverjar sér í öflun fiskveiðiréttinda og Grikkir í Kýpurdeilunni við Tyrki.
Mótast hefur viðskiptaleg ofbeldisstefna Evrópusambandsins gagnvart umhverfi sínu. Sú stefna kom skýrt fram í samningaþjarki Evrópu, Bandaríkjanna og Japans um stofnun Alþjóðlegu viðskiptastofnunarinnar. Þessi stefna getur valdið okkur ýmsum viðskiptavandræðum.
Til þess að hindra, að skálkurinn skaði okkur, þurfum við að vera aðilar. Í stað þess að þurfa að verjast hremmingum af hálfu bandalagsins í sérmálum okkur mundum við geta notað bandalagið til að efla sérhagsmuni okkar. Við getum það aðeins með aðild að bandalaginu.
Íslenzkir stjórnmálamenn hafa ekki kjark til að leiða okkur inn í Evrópu. Þeir reyna að telja okkur trú um, að með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu höfum við fengið flest það, sem við þurfum, án þess að kosta miklu til. Þeir virðast telja, að svæðið sé varanlegt.
Sú er ekki skoðun manna í umheiminum. Til dæmis eru alþjóðlegir fjárfestar sannfærðir um, að svæðið sé tímabundið fyrirbæri. Þeir fjárfesta því frekar í Svíþjóð en í Noregi, ef þeir vilja vera á evrópska markaðinum. Þeir telja betra að vera í stofunni en í forstofunni.
Stundum verður vart við draumóra um, að Japanir eða Bandaríkjamenn vilji komast með fótinn inn fyrir dyr Evrópu með fjárfestingum á Íslandi. Þetta er út í hött. Þeir vilja ekki einu sinni kaupa jarðir á Íslandi, þótt þeir eigi þess kost. Við erum úti í kuldanum.
Í ljós er að koma, að Evrópska efnahagssvæðið er lítið annað en stofnun til að taka við lögum, reglum og tilskipunum Evrópusambandsins og koma þeim í framkvæmd í Noregi og á Íslandi. Evrópusambandið stjórnar okkur óbeint, þótt við séum ekki aðilar að stjórn þess.
Smáríki hafa áhrif í Evrópusambandinu, svo sem Lúxemborg sannar. Þau hafa meiri áhrif en sem nemur íbúafjölda þeirra. Ef við hefðum farið inn með Svíum og Finnum, hefðum við svipaða stöðu og Lúxemborgarar. Við hefðum fengið aðild að framkvæmdastjórninni sjálfri.
Við eigum á hættu, að þetta breytist. Stóru ríkin í Evrópusambandinu eru ósátt við vaxandi hlutdeild smáríkja í sambandinu og vilja minnka hlut þeirra smáríkja, sem enn eiga eftir að sækja um aðild. Þannig rýrna smám saman möguleikar okkar á að hafa áhrif í sambandinu.
Samt munum við fyrr eða síðar neyðast til að ganga í Evrópusambandið. Spurningin hefur verið, hvort við stefnum strax að því og komumst inn fyrir aldamót á umdeilanlegum kjörum eða hvort við látum það dragast fram yfir aldamót og sætum þá enn lakari kjörum.
Samkomulag flestra íslenzkra stjórnmálaflokka um að fresta sem lengst ákvörðun um Evrópuaðild er huglaus afstaða, sem skaðar framtíðarhagsmuni okkar.
Jónas Kristjánsson
DV