Gamlir og þreyttir

Greinar

Enga leiðsögn er að hafa af hálfu stjórnmálaflokkanna, sem bjóða fram lista í öllum kjördæmum landsins og munu skipa öll eða nærri öll þingsæti næsta kjörtímabils. Allir eru flokkarnir orðnir gamlir og þreyttir, einnig sá, sem stofnaður var gamall og þreyttur í vetur.

Allir eru þetta íhaldsflokkar með sniði Framsóknarflokksins. Þeir munu ekki stuðla að góðu lífi Íslendinga eftir aldamót. Þeir eru meira eða minna uppteknir af fortíðinni og varðveizlu hennar. Þeir geta ekki svarað því, á hverju við eigum að lifa fram eftir næstu öld.

Ef eitthvað er nefnt, sem máli skiptir, segir samhljóða stjórnmálakórinn, að það sé ekki til umræðu. Bannhelgi er á skoðunum um samband Íslands við Evrópu. Hvergi má nefna, að afnema beri gæludýrakerfi gömlu atvinnuveganna til að rýma til fyrir lifibrauði 21. aldar.

Sumir telja Alþýðuflokkinn vera undantekningu frá reglunni. En það er um leið hefð þess flokks að selja öll framfaramál sín fyrir stóla og aðgang að spillingu. Þess vegna er ráðlegt að taka lítið mark á stefnu flokksins í neinu máli, sem greinir hann í orði frá öðrum flokkum.

Íhaldskór sex framsóknarflokka er afleiðing lítils álits ráðamanna flokkanna á kjósendum í landinu. Almennt er talið og stutt skoðanakönnunum, að þjóðin hafi lítinn áhuga á breytingum, sem raskað geti ró hennar og knúið hana til að mæta nýjum og ótryggum aðstæðum.

Þetta er rétt mat ráðamanna flokkanna. Þjóðin vill ekki láta raska sér. Hún er gömul og þreytt eins og stjórnmálaflokkarnir. Hún vill búa að sínu og hafa landið allt að byggðasafni. Meirihluti hennar skelfist þá tilhugsun, að eitthvað verði á morgun öðruvísi en það var í gær.

Samkvæmt þessu mætti ætla, að Íslendingar væru í stórum dráttum í góðum málum. Svo er hins vegar alls ekki. Við höfum til dæmis ekki lengur efni á að reka menntakerfi, sem horfir til framtíðar, af því að við erum að lokast inni í dýrkeyptum atvinnuháttum fyrri áratuga.

Varðveizlu- og velferðarstefna ríður húsum hér á landi. Ýmist hafa menn í huga velferð fólks á líðandi stundu eða velferð atvinnulífsins á líðandi stundu. Hér á landi er velferð atvinnulífsins dýrari hluti þessa kerfis og gerir þjóðinni ókleift að greiða sér bærileg laun.

Þjóðmálin snúast um skiptingu á köku, sem er allt of lítil, einmitt vegna þess að þjóðarsátt er um að skera ekki upp atvinnulífið. Þess vegna erum við ekki virkir þátttakendur í Evrópu og þess vegna borgum við um 20 milljarða króna á ári í herkostnað af landbúnaði.

Ýmsar sagnfræðilegar ástæður valda því, að þjóðin raðar sér í sex stjórnmálaflokka, sem allir eru eins í ríkisstjórn, þótt áherzlumunur sé í stefnuskrám. Sumir telja sig til vinstri eða hægri, til félagshyggju eða frjálshyggju, en útkoman er eins, íhaldsflokkur að hætti Framsóknar.

Þetta hefur ekki breytzt við fjölgun flokka. Nýjasti flokkurinn fellur alveg inn í gamla mynztrið. Hann hefur fengið fólk og fortíð úr hinum flokkunum og mun halda sér á sömu slóðum og þeir. Enda hefur óákveðnum kjósendum ekki fækkað við komu þessa nýgamla flokks.

Kosningabaráttan hefur farið hægt af stað. Þótt aðeins hálf fjórða vika sé til kosninga, er lítill stjórnmálasvipur á samfélaginu. Frambjóðendur hafa um fátt að tala, af því að þeir hafa fátt til málanna að leggja annað en margtuggnar klisjur úr fyrri kosningum og frá fyrri áratugum.

Að þessu sinni hefur aukizt val hinna mörgu kjósenda, sem vilja varðveita fortíðina, en hinir í minnihlutanum, sem vilja röskun, hafa enn ekki um neitt að velja.

Jónas Kristjánsson

DV