Hulduplögg í Reykjavík

Greinar

Skemmtileg deila er risin í borgarstjórn Reykjavíkur um íslenzka hugtakafræði. Rifizt er um, hvort ákveðið plagg sé skýrsla eða greinargerð. Samkvæmt íslenzkri samheitaorðabók er skýrsla og greinargerð sami hluturinn, svo að deilan hæfir vel íslenzkum stjórnmálum.

Þetta plagg og önnur af sama toga voru samin fyrir 4,3 milljónir handa Markúsi Erni Antonssyni borgarstjóra. Ekkert þeirra hefur skilað sér eftir eðlilegum leiðum til núverandi borgarstjóra, en eitt þeirra komst í hendur hans fyrir tilstilli huldumanns úr kerfinu.

Í vor lofaði Árni Sigfússon, sem þá var borgarstjóri um skeið, að afhenda borgarfulltrúum greinargerð, sem lægi til grundvallar áðurnefndum plöggum. Lítið varð úr efndum, en þó lagði Árni fram minnisblað til sín frá fyrrverandi borgarstjóra. Þótti það rýrt í roðinu.

Í núverandi deilu um þetta mál segir Árni, að plaggið, sem fannst, hafi verið unnið snemma á ferli vinnunnar að baki 4,3 milljónanna. Það sé byggt á lauslegri athugun. Samkvæmt þessu eru enn ófundin þau minnisatriði, greinargerðir eða skýrslur, sem meira máli skipta.

Í núverandi meirihluta borgarstjórnar verður vart þeirrar áleitnu skoðunar, að ekki sé hægt að sýna þessi plögg, af því að í raun hafi þau verið hluti af kosningaundirbúningi Sjálfstæðisflokksins og hefðu sem slík átt að greiðast af honum, en ekki af borgarsjóði.

Í þessari stöðu virðist eðlilegt, að þeir aðilar, sem hafa samið eða fengið umrædd plögg, veiti aðgang að þeim, svo að hægt sé að sjá, hvað kom út úr hinum margumtöluðu milljónum og hvort það voru upplýsingar fyrir borgaryfirvöld eða fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta minnir á, að opna þarf valdakerfi á Íslandi á svipaðan hátt og gert var fyrir löngu í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. Það felur í sér, að almenningi er veittur aðgangur í tæka tíð að plöggum og fundum opinberra aðila, þar með talið vinnuplöggum og vinnufundum.

Lög um þetta hafa verið kölluð Sólskinslög, af því að þau lýsa almenningi inn í skúmaskot stjórnmála og stjórnsýslu. Þau stefna að endurheimt lýðræðis, sem hefur drukknað í kerfinu. Þau eiga að gera fólki kleift að komast að raun um, hvernig atburðarás verður til.

Hér í blaðinu hefur í sautján ár verið lagt til, að íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn tækju upp hin bandarísku sjónarmið. Þeir hafa daufheyrzt við því, enda ríkir hér leyndarhefð. Valdamenn vilja halda upplýsingum fyrir sig til að verja og efla stöðu sína.

Samkvæmt reglum leyndarsinna á aldrei að láta neinn vita neitt annað en það, sem hann nauðsynlega þarf til að vera starfhæfur. Þannig er hann síður talinn geta verið hættulegur óhæfum yfirmanni. Með skömmtun upplýsinga er reynt að viðhalda ríkjandi valdakerfi.

Samkvæmt vinnulagi leyndarsinna þurfa að vera til plögg, sem einn stjórnmálaflokkur hefur, en hinir ekki; þurfa að vera til plögg, sem borgarstjóri hefur, en ekki borgarfulltrúar eða embættismenn; þurfa að vera til plögg sem einn borgarstjóri hefur, en sá næsti ekki.

Þessi hefð er andstæð lýðræðishefðinni. Samkvæmt henni eiga allir að hafa aðgang að sömu upplýsingum. Í lýðræði er ekki skammtaður aðgangur að þekkingu. Þar sem íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn vilja ekki skilja þetta, þarf að setja um það skýr lög.

Meðan svo er ekki, hefðu fyrrverandi borgarstjórar meiri sóma af að láta fólki í té hin frægu plögg heldur en að þykjast furða sig á, að þau skuli ekki finnast.

Jónas Kristjánsson

DV