400 milljörðum síðar

Greinar

Rúmlega tveir áratugir eru síðan lagðar voru fram í leiðurum þessa dagblaðs fastmótaðar tillögur um róttæka lausn á dýrkeyptum vandræðum landbúnaðarins. Þessar tillögur í leiðurum blaðsins eru enn í fullu gildi tveimur áratugum og fjögur hundruð milljörðum króna síðar.

Af því að ekki var hlustað á þessar tillögur, hvorki fyrr né síðar, hefur smám saman þrengt að bændum á þessu tímabili. Sjálfvirka fyrirgreiðslukerfið hefur í senn bundið bændur áttahagafjötrum og smám saman gert þá fátækari en þeir voru við upphaf þessa tímabils.

Herkostnaðurinn af heyrnarleysi ráðamanna og meirihluta þjóðarinnar hefur á þessu tímabili numið um tuttugu milljörðum króna á ári á núverandi verðlagi. Það jafngildir fjögur hundruð milljörðum króna á tímabilinu í heild og eru þá ekki reiknaðir vextir af upphæðinni.

Þessi tala er í stórum dráttum að einum þriðja fengin úr fjárlögum ríkisins. Það eru niðurgreiðslurnar og liðir úr landbúnaðarkafla fjárlaga. Að tveimur þriðju er hún fengin með mati á verðmæti innflutningsbanns og annarra takmarkana á viðskiptafrelsi landbúnaðarafurða.

Ýmsir hagfræðingar, einkum í Háskóla og Seðlabanka, hafa komizt eftir ýmsum leiðum að svipaðri niðurstöðu. Herkostnaðurinn hefur samanlagt numið nálægt tuttugu milljörðum á ári, þar af um sjö milljarðar á herðum skattgreiðenda og þrettán á herðum neytenda.

Fjögur hundruð milljarðar eru há tala. Hún er tvöföld á við heildarskuldir þjóðarinnar í útlöndum. Hún jafngildir landsframleiðslu heils árs. Og hún samsvarar fjárlögum ríkisins í tvö ár. Hún er martröð, sem nægir ein og sér til að útskýra láglaunaþjóðfélagið á Íslandi.

Fyrir rúmlega tveimur áratugum var hér í blaðinu ítrekað lagt til, að ríkið legði niður allan beinan og óbeinan stuðning við landbúnað umfram aðra atvinnuvegi og notaði sparnaðinn að hluta, til dæmis að hálfu, til að kaupa upp jarðir og styðja bændur til að bregða búi.

Síðan hefur á hverju ári verið minnt á það oftar en einu sinni hér í blaðinu, að afnema þurfi niðurgreiðslur, uppbætur, beina styrki og fyrirgreiðslur í offramleiðslugreinum sauðfjár- og nautgriparæktar, samhliða afnámi innflutningsbanns og annarra verzlunarhafta.

Um leið hefur jafnan verið ítrekað, að ríkið þurfi að kaupa upp jarðir til að taka þær úr ábúð, útvega sauðfjár- og nautgripabændum launaða endurmenntun á öðrum sviðum, svo og að hjálpa þeim við íbúðarkaup í þéttbýli, ef þeir þyrftu að flytja af atvinnuástæðum.

Allar þessar tillögur voru fastmótaðar fyrir tveimur áratugum. Þá var að ýmsu leyti betri aðstaða en núna til að framkvæma þær. Ekki var þá búið að þrengja eins að bændum og nú hefur verið gert og atvinnulífið skorti sárlega starfskrafta á öðrum sviðum í þá daga.

Nokkur umræða var í fyrstu um þessar tillögur. Fljótlega sáu þó talsmenn hins hefðbundna landbúnaðar, að betur hentaði þeim að loka hlustunum og hafa í staðinn uppi léttgeggjað hjal um meinta óvini bændastéttarinnar. Og krabbamein landbúnaðarins hefur fengið að vaxa.

Neikvæð viðbrögð landbúnaðarkerfisins, ríkisins og meirihluta þjóðarinnar hafa kostað þjóðfélagið um fjögur hundruð milljarða króna á þessu tveggja áratuga tímabili. Um leið hafa þær bundið bændur átthagafjötrum og þrengt afkomu þeirra, einkum á síðari árum.

Leiðararnir hafa hins vegar fjallað um, að bændur yrðu mun færri og mun ríkari en þeir voru þá og eru nú, og þyrftu ekki að blygðast sín fyrir ástandið.

Jónas Kristjánsson

DV