Ábyrgð á verkfallstjóni

Greinar

Þegar Hitler réðst inn í Pólland í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar sagði hann, að það væri Pólverjum að kenna. Þeir hefðu neitað að fallast á fáeinar kröfur, sem hann taldi hógværar. Af sömu ástæðu taldi hann hörmungar stríðsins í heild vera Pólverjum að kenna.

Hitler gerði fræga þá aðferð árásaraðila að kenna þeim, sem ráðist er á, um árásina. Rökfræðilega er kenning hans alkunn endaleysa, hvort sem eitthvað hefur verið til eða ekki í kvörtunarefnum hans gagnvart Pólverjum. Ábyrgð geranda á aðgerðum sínum er rökfræðilega skýr.

Þetta þýðir um leið, að tjón er ekki þeim að kenna, sem þumbast við, þegar mótaðili fer í aðgerðir til að knýja fram sjónarmið sín. Það er ekki ábyrgðarhluti að þumbast gegn skiljanlegum kröfum, heldur er ábyrgðarhluti að valda öðrum tjóni með gerðum sínum.

Þegar verkalýðsfélag á Suðurnesjum fór í verkfall og lokaði Keflavíkurflugvelli varð til dómsmál, sem má taka sem dæmi. Farþegi var ósáttur við að vera fórnardýr verkfalls og sótti rétt sinn, ekki til þess, sem vinna var stöðvuð hjá, heldur til félagsins, sem verkfallið framdi.

Farþeginn vann mál sitt og verkalýðsfélagið var dæmt til að greiða honum skaðabætur fyrir að missa af flugi. Þannig er ekki alltaf nóg fyrir verkalýðsfélag að semja við mótaðilann um, að eftirmál verkfalla falli niður. Slík sátt nær ekki til þess tjóns, sem þriðji aðili sætir.

Þetta gidir kannski ekki um kennaraverkfallið, sem nú stendur. Ef til vill dugir samtökum kennara að semja á endanum við ríkið um, að eftirmál vegna tjóns falli niður. Þau geta þó alls ekki bent á ríkið sem þöngulhausinn, sem beri ábyrgð á verkfallstjóni þriðja aðila.

Ef þessi þriðji aðili vildi sækja rétt sinn vegna meints tjóns, til dæmis af því að hafa misst önn eða ár úr námi, mundi hann ekki snúa kröfunni á hendur ríkinu, ef hann vildi ná árangri í málsókninni, heldur gegn stéttarfélögunum, sem framkvæmdu verkfallið, er olli tjóninu.

Ef ríkið hefði sett verkbann á kennara, væri ríkið framkvæmdaaðilinn, sem bæri ábyrgð á tjóni þriðja aðila. Þar sem kennarar settu verkfall á ríkið, eru þeir framkvæmdaaðilinn, sem ber ábyrgð á tjóni þriðja aðila. Þannig eru rökin, hvað sem Hitler sagði í gamla daga.

Hér er ekki verið að tala um málefnin, sem deilt er um í viðræðum ríkis og kennarasamtaka. Hér er aðeins verið að vísa annars vegar til málaferla, sem fóru alla leið á enda í dómskerfinu, og hins vegar til þekkts og margnotaðs dæmis um hundalógík úr sagnfræði 20. aldar.

Kennaraverkfallið hefur staðið í hálfa fimmtu viku. Svo skammt er til kosninga, að erfitt er að skera á hnútinn án þess að úr verði kosningamál. Stjórnvöld yrðu sökuð um að reyna að hafa óviðurkvæmileg áhrif á kosningaúrslit, ef þau færu að reyna að leysa málið núna.

Horfur eru því á, að verkfallið standi til vors hið minnsta og breyti tímasetningum í námi þúsunda. Þessir nemendur eiga sökótt við kennarasamtökin og geta hugsanlega höfðað mál gegn þeim fyrir að valda sér sem þriðja aðila tjóni í vinnudeilum við annan aðila.

Þessir nemendur eiga ekki sökótt við eiganda skólanna, það er að segja ríkið, og mundu ekki hafa neitt upp úr því að lögsækja ríkið fyrir tjón sitt. Hins vegar er hugsanlegt, að þeir mundu vinna mál gegn kennarasamtökunum, geranda málsins, og þannig fá tjónið bætt.

Gagnrýnivert getur verið að neita að fallast á kröfur, en það er ekki ábyrgðarhluti eins og það, að baka þriðja aðila tjóni með verkfalli. Það gildir um nám sem flug.

Jónas Kristjánsson

DV