Mild kosningabarátta

Greinar

Kosningabaráttan hefur farið vel fram til þessa. Frambjóðendur og talsmenn flokka hafa lítið reynt að níða skóinn niður hver af öðrum og lagt megináherzlu á að kynna sig og sín mál á jákvæðan hátt. Þannig hefur barátta milli flokka og milli manna mildazt með árunum.

Raunveruleg kosningabarátta er um það bil hálfnuð. Tvær vikur eru liðnar af henni og tvær eru eftir. Hún hefur að miklu leyti færzt inn í tiltölulega óhlutdræga fjölmiðla, en ferðalög frambjóðenda um kjördæmi og sameiginlegir slagsmálafundir hafa horfið í skuggann.

Helztu frambjóðendur raða tíma sínum niður á fjölmiðlana. Þeir mæta á fundi sjónvarpsstöðva og koma á beina línu kjósenda í DV, svo að dæmi séu nefnd. Í vaxandi mæli er þessum atburðum ekki stillt upp sem hanaslag, heldur sem umræðu kjósenda og frambjóðenda.

Þáttur fjölmiðla í kosningabaráttuni hefur batnað með árunum og með aukinni óhlutdrægni þeirra. Þeir veita þjóðfélaginu mikla þjónustu með því að leggja töluvert rúm undir baráttuna og að gera það endurgjaldslaust. Þannig spara þeir flokkunum bæði fyrirhöfn og tíma.

Hér í blaðinu hefur birzt fjöldi kjallaragreina frambjóðenda. Birt hafa verið persónuleg viðtöl við flokksforingjana og þeir svara nú spurningum kjósenda á beinni línu. Sagt verður frá sameiginlegum framboðsfundum og talsmenn hafa tjáð sig með eða á móti ákveðnum málefnum.

Þetta og hliðstæðar aðgerðir annarra fjölmiðla valda því, að kosningabaráttan verður flokkunum mun ódýrari en ella. Enda virðast auglýsingar flokkanna ekki hafa keyrt úr hófi, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Með sama áframhaldi hafa þeir ráð á baráttunni.

Því miður hafa þó enn ekki verið sett lög, sem skylda stjórnmálaflokka til að opna innsýn í fjárreiður sínar, svo að hægt sé að sjá, hvernig kostnaður þeirra og tekjur verða til. Sérstaklega er brýnt að sjá, hvaða fjárhagsleg áhrif voldugir aðilar hafa í kosningabaráttunni.

Við sjáum það sums staðar í útlöndum, að stórfyrirtæki og hagsmunasamtök af ýmsu tagi sjá sér hag í að styðja stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn í von um að fá fyrir bragðið meiri og ljúfari aðgang að þeim, þegar og ef þeir setjast við stjórnvölinn í þjóðfélaginu.

Kosningabaráttan ber að þessu sinni ekki merki þess, að áhrif slíkra utanaðkomandi aðila fari vaxandi. En annar vandi hefur færzt í aukana. Það er, að flokkarnir hafa í viðleitni sinni til mildi og mýktar færzt inn á friðsæla miðju stjórnmálanna og lagt niður harðar skoðanir.

Þegar DV setti upp mál, sem áttu að vera þess eðlis, að talsmenn tveggja flokka gætu tjáð sig með eða á móti þeim, kom í ljós, að þessi mál eru ekki mörg og að þeim hefur fækkað. Í flestum tilvikum eru flokkarnir ekki með eða á móti, heldur hafa uppi eins konar ja og humm.

Þetta aukna skoðanaleysi flokka er auðvitað um leið ein af forsendum þess, að kosningabaráttan hefur verið mild og jákvæð. Minna er hægt að rífast, þegar enginn þykist lengur vera ákveðið á móti varnarliðinu eða með frjálshyggjunni, svo að tvö þekkt dæmi séu nefnd.

Skoðanakannanir sýna, að byrjað er að fækka í hinum fjölmenna hópi óákveðinna kjósenda. Þúsundir þeirra hafa verið að gera upp hug sinn á síðustu tveimur vikum og þúsundir munu gera það á næstu tveimur vikum. Kosningabaráttan snýst um þessa efagjörnu kjósendur.

Að öllu samanlögðu þjónar sá þáttur lýðræðisins, sem felst í kosningum og kosningabaráttu, hlutverki sínu nokkurn veginn á þann hátt, sem hægt er að ætlast til.

Jónas Kristjánsson

DV