Ávísun á ímyndaðan auð

Greinar

Baksamningur nýju ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál gerir ráð fyrir, að ofveiði á þorski verði aukin um 8-12.000 tonn á ári til að friða eigendur veiðiskipa, sem eru minni en 150 tonn, án þess að gera það á kostnað hinna, sem eiga stærri skip en 150 tonna.

Þetta er dæmigerð pólitísk lausn, afbrigði af prentun peningaseðla, sem eru ekki ávísun á nein ný verðmæti. Lausnin mildar að sinni ágreining milli smárra og stórra innan sjávarútvegsins með því að búa til viðbótarkvóta, sem ekki er ávísun á nein viðbótarverðmæti í hafinu.

Þorskurinn var ofveiddur, áður en þessi pólitíska sjónhverfing var hönnuð. Hún stuðlar að aukinni ofveiði á líðandi stund og þar með stuðlar hún að minnkun á verðgildi hverrar kvótaeignar fyrir sig, þegar hættan á hruni þorskstofnsins færist enn nær okkur en hún er nú.

Áfram verður haldið að meta stöðu þorskstofnsins. Misræmið milli raunverulegra veiða og þeirra veiða, sem þorskstofninn þolir, mun aukast og valda auknum kröfum um almennan niðurskurð veiðiheimilda áður en stofninn hrynur að færeyskum og kanadískum hætti.

Kröfurnar munu koma frá hinum raunverulegu eigendum þorskstofnsins, sem eru hvorki ráðherrar né sægreifar, heldur fólkið í landinu. Það mun krefjast þess, að umboðsmenn sínir láti ekki smáa og stóra útgerðarmenn gera þjóðareignina verðlausa með illri umgengni.

Þeim vanda ætlar ríkisstjórnin að mæta, þegar að honum kemur. Að sinni finnst henni brýnna að sætta misjöfn sjónarmið eigenda fiskiskipa á kostnað eigenda auðlindarinnar. Stjórnmálamönnum hefur jafnan fundizt skynsamlegast að pissa í skóinn á líðandi stund.

Hin innstæðulausa ávísun á þorsk er að þessu sinni sérstakt áhyggjuefni. Fremur hefði verið búizt við henni af ríkisstjórn með aðild Alþýðuflokks, sem á síðasta kjörtímabili var veikur fyrir kenningum galdralækna um, að reiknilíkön fiskifræðinga væru ekki nógu góð.

Framsóknarflokkurinn var hins vegar talinn búinn þeim kosti að vera hallari en aðrir flokkar undir ábyrga fiskveiðistjórn. Það stafaði af, að núverandi formaður hans reyndist ekki vera eins óábyrgur sjávarútvegsráðherra á sínum tíma og aðrir slíkir höfðu þá verið.

Þar sem sjávarútvegsráðherra fráfarandi og nýrrar ríkisstjórnar hefur að mestu fetað að þessu leyti í fótspor formanns Framsóknarflokksins á valdaskeiði sínu, hefði mátt vona, að samstarfsflokkarnir í nýju ríkisstjórninni sýndu meiri ábyrgð en fram kemur í baksamningnum.

Að létta og ljúfa leiðin skyldi vera valin sýnir okkur, að takmörk eru fyrir ábyrgðartilfinningu í stjórnmálum. Þrýstihóparnir eru smám saman að verða óbilgjarnari og valda stjórnmálamönnum vaxandi ótta. Þetta er hættuleg þróun, svo sem baksamningurinn sýnir.

Ábyrgðarbilun af tagi baksamningsins veldur þjóðinni miklu tjóni. 8-12.000 tonna aukin þorskveiði mun rýra þorskstofninn og valda enn meiri niðurskurði til mótvægis á allra næstu kvótaárum, nema ábyrgðarleysið vaxi enn og leiði til eyðileggingar auðlindarinnar.

Þorskurinn í sjónum eykst ekki neitt, þótt stjórnmálamenn auki veiðiheimildir um 8-12.000 tonn. Langt er síðan almennt varð ljóst, að þorskurinn er ofveiddur og fer með hverju árinu rýrnandi sem auðlind. Hlutverk stjórnmálamanna ætti að felast í að snúa þeirri þróun við.

En ríkisstjórnin lítur ekki á sig sem umboðsmann fólksins, heldur sem umboðsmann sérhagsmuna, er alltaf hafa átt fremur ljúfan aðgang að stjórnarflokkunum.

Jónas Kristjánsson

DV