Þeir skila sér síðar

Greinar

Viðræðurnar um veiðistjórn í Síldarsmugunni fóru ekki út um þúfur, heldur var samið við Færeyinga. Reynslan hefur líka sýnt, að það tekur norsk stjórnvöld langan tíma að átta sig á, að íslenzk stjórnvöld taka hóflegt mark á frekju. Þannig var það í Jan Mayen deilunni.

Í meira en áratug hafa ráðherrar og aðrir fulltrúar Íslands á þessu sviði reynt að segja Norðmönnum, að semja þyrfti um veiðar úr norsk-íslenzka síldarstofninum á opna svæðinu milli Noregs og Íslands. Norðmenn hafa hins vegar ekki fengist til að ræða málin fyrr en núna.

Norskir samningamenn vilja gleyma, að þessi síldarstofn gekk milli Noregs og Íslands, þangað til Norðmenn gengu svo nærri honum, að hann hætti hringferð sinni um hafið. Íslendingar telja sig eiga rétt í þessum stofni frá þeim tíma, er hann veiddist hér við land.

Norsk stjórnvöld og samningamenn þeirra ganga út frá því, að Norðmenn eigi þennan stofn og geti skammtað öðrum úr honum, jafnvel veiði á hafsvæðum, sem eru fjær Noregi en Íslandi og Færeyjum. Meðan þeir halda fast við þetta, ná þeir ekki samkomulagi við aðra.

Þetta minnir á tregðu norskra stjórnvalda til að viðurkenna, að efnahagslögsaga fullvalda ríkis á borð við Ísland ætti að gilda óskert í átt til eyjar á borð við Jan Mayen, sem hefur ekki efnahagslíf. Þeir reyndu þá að hafa annað fram með frekju, en tókst það ekki.

Íslenzk stjórnvöld og sammningamenn þeirra munu halda ró sinni í máli Síldarsmugunnar. Fyrsta skrefið var að semja við Færeyinga um veiðikvóta og síðan væntanlega um ábyrga síldveiðistjórn á svæðinu. Það samkomulag kemur Norðmönnum í opna skjöldu.

Íslenzk stjórnvöld munu ekki senda frá sér nein tilmæli til íslenzkra útgerðarmanna og skipstjóra um að takmarka veiðar í Síldarsmugunni. Þær veiðar hefjast nú vonandi af fullum krafti. Það verður tregðulögmáli norskra stjórnvalda til verðugrar háðungar.

Ef samkomulag næst svo milli Færeyinga og Íslendinga um ábyrga veiðistjórn á svæðinu, munu íslenzk stjórnvöld takmarka veiðar íslenzkra skipa í samræmi við þá veiðistjórn. Verður þá hafréttarlegt frumkvæði málsins komið í hendur Færeyinga og Íslendinga.

Með því að sýna annars vegar festu gegn yfirgangi Norðmanna og að hafa hins vegar frumkvæði að ábyrgri veiðistjórn á svæðinu, koma íslenzk stjórnvöld fram sem ábyrgur hagsmunaaðili. Þannig næst mestur og traustastur árangur af hálfu Íslands í þessu hagsmunamáli.

Íslenzk stjórnvöld og samningamenn þeirra hafa haldið rétt á málum Síldarsmugunnar í viðræðum við norska gagnaðila. Útilokað var að ná samkomulagi á fyrsta fundi. Norðmenn verða að fá tíma til að horfa á veiðar annarra og læra að þekkja takmörk áhrifa sinna.

Sem betur fer er hrygningarstofn síldarinnar mjög sterkur um þessar mundir, ein eða tvær milljónir tonna. Hann mun því þola óheftar veiðar á þessari vertíð. Hugsanlegt er, að fyrir næstu vertíð verði norsk stjórnvöld orðin tilbúin til raunhæfra samninga um veiðistjórn.

Á þessu kjörtímabili þarf ríkisstjórn Íslands að gæta afar mikilvægra hagsmuna á hafsvæðum, sem liggja að efnahagslögsögu landsins, bæði í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg. Þessi hagsmunagæzla hefur farið vel af stað. Hún er í senn hörð og rökrétt eins og vera ber.

Þess vegna þarf ekki að valda vonbrigðum, að norskir samningamenn stökkva frá samningaborði í fyrstu umferð. Þeir munu skila sér síðar, reynslunni ríkari.

Jónas Kristjánsson

DV